Innlent

Nýjar hótelíbúðir í hundrað ára húsi

Hverfisgata 21 Hér gisti Kristján X Danakonungur ásamt Alexandrínu drottningu í heimsókn til Íslands árið 1926. Fréttablaðið/Daníel
Hverfisgata 21 Hér gisti Kristján X Danakonungur ásamt Alexandrínu drottningu í heimsókn til Íslands árið 1926. Fréttablaðið/Daníel
Húsi Félags bókagerðarmanna við Hverfisgötu 21 verður breytt í íbúðahótel af félaginu RR Hótel sem keypt hefur húsið. Félagið rekur íbúðahótel við Hverfisgötu 45 undir nafninu Reykjavík Residence Hótel.

Samkvæmt tilkynningu frá RR Hóteli á að hefjast handa við breytingarnar um næstu mánaðamót og er áætlað að þeim ljúki í febrúar. Innrétta á tíu íbúðir á fjórum hæðum; sjö með tveimur herbergjum og þrjár stúdíóíbúðir.

Hverfisgata 21 er eitt hundrað ára á þessu ári og nýtur verndar. Eins og fram hefur komið í Fréttablaðinu gerir Húsafriðunarnefnd ekki athugasemdir við breytingar innanhúss ef þær taka mið af upphaflegum frágangi.

Þórður B. Bogason, framkvæmdastjóri RR Hótels, segir félagið hafa ágæta reynslu af því að gera upp eldri virðuleg hús og vísar þar í að á síðasta ári var Hverfisgötu 45, sem áður hýsti Sendiráð Noregs og Söngskólann í Reykjavík, breytt í fimmtán íbúða hótel.

„Í endurbótunum var haldið í upprunalega mynd hússins að utanverðu, enda götumynd þess húss friðuð. Það sama gildir um Hverfisgötu 21, þó svo að breytingum séu fleiri skorður settar. Að innanverðu verður kappkostað að allrar stærri breytingar taki mið af uppruna hússins og byggingarstíl þess tíma en að húsið uppfylli jafnframt þær kröfur sem gerðar eru til hágæðagistiaðstöðu í miðborg Reykjavíkur," segir Þórður í tilkynningu.

- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×