Körfubolti

Scott Skiles þriðji þjálfarinn sem missir vinnuna í NBA í vetur

Scott Skiles er hættur að þjálfa lið Milwaukee Bucks í NBA deildinni.
Scott Skiles er hættur að þjálfa lið Milwaukee Bucks í NBA deildinni. AP
Samkvæmt heimildum bandaríska dagblaðsins USA Today hefur Scott Skiles lokið störfum sem þjálfari NBA liðsins Milwaukee Bucks. Skiles var á sínu fjórða ári hjá félaginu en aðstoðarmaður hans Jim Boylan mun taka við liðinu þar til að nýr þjálfari verður ráðinn. Skiles, sem er 48 ára gamall, er þriðji þjálfarinn í NBA deildinni sem missir starf sitt í vetur, en hinir tveir eru Mike Brown sem var rekinn frá LA Lakers og Avery Johnson hjá Brooklyn Nets.

Þetta er í annað sinn sem Boylan tekur við aðalþjálfarastarfi tímabundið eftir að Skiles er rekinn – en þeir voru í sömu stöðu hjá Chicago Bulls þegar Skiles var sagt upp störfum tímabilið 2007-2008.

Skiles var á lokaári samingsins sem var til fjögurra ára. Milwaukee hefur unnið 16 leiki í vetur og tapað 16, en undir stjórn Skiles náði liðið að vinna 162 leiki en tapleikirnir voru alls 182. Alls hefur Skiles þjálfað í sjö ár í NBA deildinni en hann var einnig þjálfari hjá Phoenix Suns. Heildarárangur hans er rétt um 50% eða 443 sigurleikir og 422 tapleikir.

Skiles var glerharður leikstjórnandi á sínum tíma þegar hann lék í NBA deildinni. Hann á enn met sem hann setti í leik með Orlando Magic þann 30. desember árið 1990. Þar gaf Skiles alls 30 stoðsendingar í leik gegn Denver – og það met stendur enn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×