Körfubolti

Boston lagði meistarana í tvíframlengdum leik

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Boston Celtics sigraði meistara Miami Heat 100-98 í tvíframlengdum leik liðanna í NBA körfuboltanum í kvöld. Paul Pierce fór fyrir Celtics með þrefaldri tvennu í fjarveru Rajon Rondo sem var greindur með slitið krossband á meðan leiknum stóð.

Leikurinn var jafn og spennandi frá upphafi til enda. Jafnt var í hálfleik en liðin skiptust á vinna hvern leikfjórðung með fjórum stigum en alltaf náði Boston að jafna eftir betri byrjun Miami í hvorum hálfleik.

Jafnt var eftir venjulegan leiktíma 87-87 og 93-93 eftir fyrri framlengingu. Boston hafði betur í annarri framlengingunni með mjög góðum varnarleik og Paul Pierce allt í öllu.

Pierce hefur oft skotið betur en hann náði þó að skora 17 stig auk þess að gefa 10 stoðsendingar og hirða 13 fráköst. Kevin Garnett lék einnig mjög vel fyrir Celtics en hann skoraði 24 stig, hirti 11 fráköst, varði þrjú skot og stal 2 boltum.

Celtics fékk að auki fínt framlag frá varamönnum sínum en Jason Terry skoraði 13 stig og Jeff Green 11.

Eins og yfirleitt áður var LeBron James allt í öllu hjá Heat. Hann skoraði 34 stig, tók 16 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Chris Bosh var óvenju ákveðinn og tók 16 fráköst auk þess að skora 16 stig.

Dwayne Wade skoraði 17 stig og Ray Allen skoraði 21 stig af bekknum á sínum gamla heimavelli.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×