Handbolti

Patrekur hársbreidd frá sigri í Serbíu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Austurríki á enn fína möguleika á að komast á EM í handbolta eftir að liðið náði jafntefli gegn sterku liði Serba, 30-30, á útivelli í dag.

Að loknum fjórum umferðum er aðeins eitt stig sem skilur að liðin í efstu þremur sætum riðilsins. Rússar komust í sex stig með sigri á Bosníu fyrr í dag, 26-24. Serbía og Austurríki eru svo með fimm stig hvort.

Austurríkismenn voru með forystu lengst af í síðari hálfleik en Serbar skoruðu jöfnunarmarkið átján sekúndum fyrir leikslok. Lærisveinum Patreks Jóhannessonar tókst svo ekki að nýta lokasókn sína í leiknum.

Patrekur hefur náð frábærum árangri með liðið í þessum erfiða riðli. Austurríki vann Serbíu á heimavelli, 31-28, á fimmtudagskvöldið og galopnaði þar með toppbaráttuna.

Austurríki á eftir að spila við Bosníu, sem er enn stigalaust, á útivelli og svo gegn Rússum á heimavelli. Þeir leikir fara fram í júní.

Þá unnu Pólverjar góðan sigur á Svíum, 22-18, á heimavelli. Bæði lið eru með sex stig í efsta sæti 5. riðils og nánast örugg um að komast bæði á EM í Danmörku á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×