Íslenski boltinn

Skaginn teflir fram varaliði gegn Ólsurum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stuðningsmenn Ólsarar í Kaplakrika síðasta sumar.
Stuðningsmenn Ólsarar í Kaplakrika síðasta sumar. Mynd/Daníel
Átta liða úrslit Lengjubikars karla í knattspyrnu hefjast í kvöld með þremur stórleikjum.

KR tekur á móti Breiðabliki á gervigrasvelli sínum vestur í bæ. KR-ingar unnu alla sjö leiki sína í riðlakeppninni með heildarmarkatöluna 27-5. Blikar höfnuðu í öðru sæti í sínum riðli með fimm sigra og eitt jafntefli.

Nýliðarnir í Pepsi-deild karla, Víkingur frá Ólafsvík, sækja Akranes heim á Skipaskaga. Ólsarar unnu sex af sjö leikjum sínum í riðlakeppninni en Skagamenn unnu þrjá og gerðu tvö jafntefli í sínum riðli.

Meistaraflokkur Skagamanna er í æfingaferð erlendis sem stendur. Það kemur því í hlut 2. flokks félagsins að spreyta sig gegn Ólsurum í kvöld. Fyrir vikið ætti leið Víkinga í undanúrslitin að vera nokkuð greið.

Í Egilshöll mætast Valur og Fylkir. Valsmenn unnu sex af sjö leikjum sínum í riðlakeppninni en Fylkismenn fjóra og gerðu tvö jafntefli. Allir leikir kvöldsins hefjast klukkan 19.

Átta liða úrslitunum lýkur á morgun þegar Stjarnan og FH mætast í Garðabænum. Ef jafnt er að loknum venjulegum leiktíma í Lengjubikarnum er farið beint í vítaspyrnukeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×