Handbolti

Ólafur hafnaði danska landsliðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur á æfingu hjá Val.
Ólafur á æfingu hjá Val. Mynd/Stefán

Ólafur Stefánsson staðfesti við danska fjölmiðla í dag að honum hafi boðist að taka við þjálfun danska karlalandsliðsins í handbolta.

„Wilbek hringdi í mig og spurði hvort ég vildi gerast þjálfari danska landsliðsins,“ sagði Ólafur í samtali við BT.

„Ég afþakkaði en sagði honum að þetta væri mikill heiður fyrir mig. Ástæðan var fyrst og fremst sú að ég taldi mig þurfa tíma og rúm til að skipuleggja framtíð fjölskyldu minnar,“ sagði Ólafur en hann tók nýverið við þjálfun Vals og mun stýra liðinu næstu tvö árin.

„Ég vildi þar að auki starfa sem þjálfari sem hefur dagleg samskipti við leikmenn í gegnum allt tímabilið.“

Wilbek staðfesti að hann hefði rætt við Ólaf fyrir um hálfu ári síðan. „Það veit þó enginn hvað hefði gerst hefði hann sagt já, því það eru fleiri sem koma að þessari ákvörðun. Það voru líka aðrir sem komu til greina.“

Ólafur sagði einnig að hefði hann tekið starfinu hefði hann mögulega byrjað strax á HM í Spáni. Wilbek segir það hafa verið mögulegt en að það hefði allt eins verið líklegt að Ólafur hefði verið aðstoðarmaður hans fyrst um sinn.

Framtíð Wilbek er enn í óvissu en líklegast er að hann muni hætta með danska landsliðið eftir EM í Danmörku á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×