Körfubolti

Grant Hill leggur skóna á hilluna

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty

Grant Hill sem lék með Los Angeles Clippers í NBA í vetur tilkynnti í nótt að hann hyggist hætta í körfubolta nú í sumar eftir 19 ára feril.

„Ég er ánægður með að segja að þetta er komið gott,“ sagði Hill á sjónvarpsstöðinni TNT fyrir leik Indiana Pacers og Miami Heat í nótt.

„Ég er hættur. Ég átti góðan feril en þetta hefur átt nokkurn aðdraganda. Ég er kominn á þann stað að ég vil ekki meira en ég hef notið þess að spila,“ sagði Hill sem er orðinn fertugur og átti eitt ár eftir af tveggja ára samningi sínum við Clippers sem hann skrifaði undir í fyrra sumar.

Hill gaf margsinnis í skyn í vetur að þetta yrði hans síðasta tímabil en hann lék aðeins 29 leiki fyrir Clippers í vetur vegna ýmissa meiðsla. Ferill Hill var meiðslum stráður, sérstaklega framan af en hann hafði þó ekki leikið færri leiki á tímabili frá árinu 2006.

Hill var  nálægt því að binda enda á ferilinn þegar hann lék aðeins 47 leiki fyrir Orlando Magic á árunum 2000 til 2004. Hann þótti einn besti körfuboltamaður heimsins seint á tíunda áratug síðustu aldar. Hann var valinn nýliði ársins 1995 ásamt Jason Kidd, vann gull verðlaun með Bandaríkjunum á Ólympíuleikunum 1996 og varð tvisvar háskólameistari með Duke.

Það var ekki fyrr en hann kom til Phoenix Suns að hann náði að leika yfir 80 leiki á tímabili en honum tókst það þrisvar á fimm tímabilum sínum með félaginu. Hann komst lengst í úrslit Vesturstrandarinnar í úrslitakeppni NBA 2010 með Suns.

Hill skoraði 16,7 stig, tók 6 fráköst, gaf 4,1 stoðsendingu og stal 1,2 boltum að meðaltali í leik á 33,9 mínútum á ferli sínum, í 1.026 leikjum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×