Íslenski boltinn

Grindavík og Fjölnir jöfn á toppi 1. deildar karla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhann Helgason.
Jóhann Helgason. Mynd/Vilhelm
Grindavík og Fjölnir komust bæði upp fyrir Hauka með góðum sigrum í 1. deild karla í kvöld en Víkingar missti niður tveggja marka forystu á Ólafsfirði. Fjölnir vann 4-1 sigur á Haukum sem voru á toppnum fyrir leiki kvöldsins.

Jóhann Helgason kom Grindavík á toppinn þegar hann skoraði bæði mörk liðsins í 2-0 sigri á Tindastól á Sauðárkróki. Þetta var langþráður sigur hjá Grindavík enda liðið búið að spila fjóra leiki í röð án þess að ná að fagna sigri. Grindavík er með jafnmörg stig og Fjölnir en betri markatölu.

Aron Sigurðarson skoraði tvö mörk og Guðmundur Böðvar Guðjónsson það fyrsta strax á annarri mínútu leiksins þegar Fjölnir vann 4-1 sigur á Haukum í Grafarvogi. Sigurbjörn Örn Hreiðarsson minnkaði muninn undir lokin en Ragnar Leósson, nýkomin frá ÍBV, átti lokaorðið þegar hann innsiglaði sigur Fjölnismanna.

Igor Taskovic og Aron Elís Þrándarson komu Víkingum í 2-0 á móti KF á Ólafsfjarðarvelli en Teitur og Halldór Logi Hilmarsson tryggðu heimamönnum stig. Víkingar náðu ekki að nýta sér að vera manni fleiri síðustu þrettán mínútur leiksins.

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar af bæði úrslit.net og ksí.is.

Úrslit og markaskorarar í 1. deild karla í kvöld:

Fjölnir - Haukar 4-1

1-0 Guðmundur Böðvar Guðjónsson (2.), 2-0 Aron Sigurðarson (51.), 3-0 Aron Sigurðarson (60.), 3-1 Sigurbjörn Örn Hreiðarsson (89.), 4-1 Ragnar Leósson (90.).

KF - Víkingur R. 2-2

0-1 Igor Taskovic (12.), 0-2 Aron Elís Þrándarson (64.), 1-2 Teitur Pétursson (65.), 2-2 Halldór Logi Hilmarsson (70.).

Tindastóll - Grindavík 0-2

0-1 Jóhann Helgason (41.), 0-2 Jóhann Helgason (69.).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×