Handbolti

SönderjyskE tapaði sínum fyrsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stella Sigurðardóttir.
Stella Sigurðardóttir. Mynd/Stefán
Íslendingaliðið SönderjyskE tapaði með sjö marka mun á móti sterku liði Midtjylland, 21-28, í fyrstu umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í handbolta kvenna í kvöld en þetta var fyrsti deildarleikur Karenar Knútsdóttur, Stellu Sigurðardóttur og Ramune Pekarskyt með danska liðinu. Rut Jónsdóttir og félagar í Team Tvis Holstebro unnu á sama tíma 28-25 útisigur á Nykøbing Falster HK.

Midtjylland-liðið var bara tveimur mörkum yfir í hálfleik, 12-10, eftir að hafa komist í 5-0 í upphafi leiksins en SönderjyskE gerði vel í að koma sér aftur inn í leikinn á móti sterku liði á útivelli.

Midtjylland var hinsvegar sterkara liðið í seinni hálfleik og tryggði sér góðan sigur en 1500 manns mættu á leikinn.

Stelpurnar hans Ágústar Jóhannssonar fengu þarna mikla eldskírn á útivelli á móti sterkasta liði Danmerkur en það verður vissulega fróðlegt að fylgjast með Ágústi og stelpunum hans í framhaldinu en í kvöld spilaði liðið án tveggja lykilmanna sem meiddust í vikunni.

Stella Sigurðardóttir skoraði fimm mörk í kvöld, Ramune Pekarskyte skoraði tvö mörk og Karen Knútsdóttir var með eitt mark.

Team Tvis Holstebro var á sama tíma ekki í miklum vandræðum með lið Nykøbing Falster HK enda komið í 17-10 í hálfleik. Nykøbing Falster HK náði að laga stöðuna í seinni hálfleik en sigurinn var aldrei í hættu. Rut Jónsdóttir skoraði þrjú mörk fyrir lið Team Tvis Holstebro í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×