Handbolti

Fyrsta tapið hjá strákunum hans Geirs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Geir Sveinsson.
Geir Sveinsson. Mynd/NordicPhotos/Getty
HC Bregenz, lið Geir Sveinssonar, tapaði í kvöld sínum fyrsta leik á tímabilinu í austurrísku deildinni í handbolta.  HC Bregenz tapaði þá 27-29 á heimavelli í nágrannaslag á móti austurrísku meisturunum í HC Hard en það dugði ekki að vera tveimur mörkum yfir þegar aðeins sjö mínútur voru eftir.

HC Bregenz var búið að vinna fjóra fyrstu leiki sína fyrir leikinn í kvöld en HC Hard náði liðinu að stigum í öðru sætinu með þessum sigri. Fivers Margareten er nú eina taplausa liðið í austurrísku deildinni.  

Króatíski línumaðurinn Filip Gavranovic var markahæstur hjá HC Bregenz með níu mörk og nýtur greinilega góðra ráða frá Geir. Litháinn Povilas Barbarskas skoraði sjö mörk.

Bregenz byrjaði vel og komst 4-1 eftir sex mínútna leik en HC Hard var komið í 8-6 átta mínútum síðar. Hard var 17-15 yfir í hálfleik og komst mest þremur mörkum yfir í seinni hálfleiknum.

Bregenz vann sig inn í leikinn og var 27-25 yfir þegar sjö mínútur voru eftir. HC Hard lokaði þá öllum leiðum og tryggði sér sigurinn með því að skora fjögur síðustu mörk leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×