Handbolti

Róbert vann Arnór í Íslendingaslag í Frakklandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Róbert Gunnarsson
Róbert Gunnarsson Mynd/HSÍ
Róbert Gunnarsson og félagar í Paris Saint-Germain unnu fimm marka útisigur á Saint Raphaël, 36-31, í frönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld eftir að hafa verið 18-12 yfir í hálfleik.

Róbert hafði þar með betur gegn liðsfélaga sínum í landsliðinu, Arnór Atlason, bæði með að vinna leikinn sem og að skora tvö mörk en Arnór komst ekki á blað. Ásgeir Örn Hallgrímsson var ekki með PSG í þessum leik.

Róbert nýtti 2 af 3 skotum sínum en eina skot Arnórs í leiknum rataði ekki rétta leið. Arnór átti eina stoðsendingu á félaga sína samkvæmt tölfræðiskráningu franska sambandsins.

Danska stórskyttan Mikkel Hansen var markahæstur hjá Paris Saint-Germain með tíu mörk úr fjórtán skotum en ekkert marka hans kom úr vítakasti. Fahrudin Melic skoraði 7 mörk, 4 úr vítum, og Daniel Narcisse var með 6 mörk úr 6 skotum.

Morten Olsen var markahæstur hjá Saint Raphaël með sex mörk Aurélien Abily skoraði fimm mörk.

Paris Saint-Germain er í efsta sæti frönsku deildarinnar en liðið hefur náð í 13 stig af 14 mögulegum. Saint Raphaël er í sjötta sætinu með fimm stigum minna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×