Körfubolti

Snæfell stöðvaði sigurgöngu Haukakvenna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hildur Sigurðardóttir.
Hildur Sigurðardóttir. Mynd/Stefán
Snæfell varð fyrsta liðið til að vinna Haukakonur síðan 30. október þegar Snæfell vann þrettán stiga sigur á Haukum, 88-75, í 13. umferð Dominos-deildar kvenna í körfubolta í Stykkishólmi í kvöld.

Chynna Unique Brown átti frábæran leik fyrir Snæfell en hún skoraði 35 stig og tók 10 fráköst. Þrír íslenskir leikmenn komust yfir þrettán stigin, fyrirliðinn Hildur Sigurðardóttir var með 17 stig og 8 stoðsendingar, Hildur Björg Kjartansdóttir var með 13 stig og 11 fráköst og Eva Margrét Kristjánsdóttir skoraði 13 stig og gaf 4 stoðsendingar.

Lele Hardy, bandaríski leikmaðurinn hjá Haukum, var með rosalega tölur að vanda en hún skoraði 40 stig, tók 20 fráköst, fiskaði 15 villur og gaf 7 stoðsendingar. Margrét Rósa Hálfdanardóttir var næststigahæst hjá Haukum með 8 stig.  

Haukaliðið var búið að vinna sex síðustu deildarleiki sína eða síðan liðið tapaði með minnsta mun á móti Snæfelli í lok október. Haukar hefðu náð öðru sæti deildarinnar af Snæfelli með sigri en Snæfell náði Keflavík að stigum með þessum sigri.

Snæfell var sterkara framan af leik, vann fyrsta leikhlutann 19-11 og var níu stigum yfir í hálfleik, 40-31. Snæfellsliðið náði mest fimmtán stiga forystu en Haukarnir náðu muninum niður í fimm stig, 74-69, sex mínútum fyrir leikslok.

Snæfellsliðið var sterkara á endasprettinum, vann lokakafla leiksins 14-6 og landaði mikilvægum sigri í baráttunni um efstu sætin í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×