Handbolti

Þórir og stelpurnar byrjuðu á sigri á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nora Mörk fagnar einu átta marka sinna í kvöld.
Nora Mörk fagnar einu átta marka sinna í kvöld. Mynd/AFP
Norska kvennalandsliðið vann tveggja marka sigur á Spáni, 22-20, í fyrsta leik sínum á HM kvenna í handbolta í Serbíu en þjálfari liðsins er eins og kunnugt er Íslendingurinn Þórir Hergeirsson.

Nora Mörk átti flottan leik fyrir Noreg í kvöld en hún skoraði átta mörk úr ellefu skotum og var langmarkahæst. Linn Jorunn Sulland skoraði fjögur mörk og Katrine Lunde varði mjög vel í norska markinu.

Spænska liðið byrjaði vel og komst í 4-1 eftir tólf mínútur en þær norsku jöfnuðu í 4-4 og voru 11-10 yfir í hálfleik. Norska liðið var síðan alltaf skrefinu á undan í seinni hálfleiknum en náði þó aldrei að klára leikinn fyrr en í blálokin.

Marta Mangué, Elisabeth Pinedo og Begoña Fernández skoruðu allar fjögur mörk fyrir spænska liðið.

Danir unnu á sama tíma 23 marka sigur á Kína, 44-21, eftir að hafa verið 19-13 yfir í hálfleik. Jane Schumacher og Kristina Kristiansen skoruðu báðar sex mörk fyrir Dani.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×