Handbolti

Brasilía í undanúrslit í fyrsta sinn eftir rosalegan leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Brasilía náði eins og Pólland sögulegum árangri á HM kvenna í handbolta í kvöld eftir tveggja marka sigur á Ungverjalandi, 33-31, í tvíframlengdum leik á HM í Serbíu.  

Alexandra do Nascimento skoraði tíu mörk fyrir Brasilíu þar á meðal fjögur af sjö mörkum liðsins í framlengingunum tveimur.

Þetta er í fyrsta sinn sem brasilíska kvennalandsliðið kemst í undanúrslitin á HM en liðið náði sínum besta árangri frá upphafi á heimavelli fyrir tveimur árum þegar þær brasilísku enduðu í fimmta sæti.

Brasilía komst í 4-1 í upphafi leiks og var 12-11 yfir í hálfleik. Ungverjar náði ítrekað tveggja marka forskoti í seinni hálfleik en Brasilía tryggði sér framlengingu með því að vinna síðustu fimm mínúturnar 3-1.

Ungverjar voru undan að skora í byrjun fyrri framlengingarinnar en staðan var 29-29 eftir hana eftir að Ungverjar jöfnuðu undir lok hennar. Brasilía var síðan sterkara liðið í annarri framlengingunni og tryggði sér sögulegan sigur.

Brasilía mætir annaðhvort Danmörku eða Þýskalandi í undanúrslitunum á föstudaginn en í hinum undanúrslitaleiknum mætir Pólland sigurvegaranum úr leik Serbíu og Noregs.

Mynd/AP
Mynd/AP
Mynd/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×