Handbolti

Þórir: Alltaf betri dómarar á karlamótunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þórir Hergeirsson
Þórir Hergeirsson Nordic Photos / Getty Images
Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta, segir það ekkert nýtt að slakir dómarar séu látnir dæma á kvennamótum.

HM í handbolta hófst í Serbíu um helgina og er Noregur enn með fullt hús stiga eftir þrjá leiki. Það hefur nú gerst í tveimur leikjum norska liðsins í röð, fyrst gegn Argentínu og svo gegn Paragvæ, að leikmaður norska liðsins fékk tveggja mínútna brottvísun fyrir brot sem liðsfélagi hans framdi.

Fjölmiðlar í Noregi hafa fjallað um málið og segir Frode Kyvåg, fyrrum handboltaþjálfari, við VG að það sé slæmur vitnisburður fyrir kvennahandboltann hversu slakir dómarar eru settir á suma leikina í Serbíu.

Þórir hefur tekið þátt í öllum stórmótum í handbolta kvenna síðan 1996 nema tveimur. Hann segir þetta ekki koma á óvart.

„Bestu dómararnir hafa aldrei verið látnir dæma á kvennamótunum,“ sagði Þórir við norska fjölmiðla sem hafa fjallað um dómgæsluna í Serbíu.

„Það eru nokkur góð dómarapör og svo önnur sem eru hér til að öðlast reynslu. Ég hef tekið eftir því að það eru mun betri dómarar á stórmótum karla, hvort sem er á EM eða HM.“

Noregur vann báða áðurnefnda leiki örugglega og er með fullt hús stiga eftir þrjá leiki. Liðið mætir Angóla í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×