Þora þau? Ólafur Þ.Stephensen skrifar 13. júlí 2013 06:00 Við sögðum frá því í fréttum okkar á Stöð 2 í fyrrakvöld að hinn svokallaði niðurskurðarhópur ríkisstjórnarinnar hefði umboð til að leggja til fækkun ríkisstarfsmanna, sem ná mætti fram með kerfisbreytingum á borð við sameiningar stofnana. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var einhverra hluta vegna hálfvandræðalegur yfir þessu; sagði að það „gæti verið“ og „mætti hugsa sér“ að ríkisstarfsmönnum fækkaði „til langs tíma“ en engar verulegar uppsagnir væru fyrirhugaðar. Það er skrýtið, því að ef stjórnin ætlar að ná markmiðum sínum um sparnað í ríkisrekstrinum blasir við að það þarf að segja upp ríkisstarfsmönnum. Annars næst ekki árangur, vegna þess hvað launakostnaður er stór hluti af ríkisútgjöldunum. Síðasta ríkisstjórn skaut mörgum erfiðum ákvörðunum á frest. Hún var til dæmis dugleg að sameina stofnanir, en hikaði við að nýta hagræðinguna sem þannig næst fram og fækka fólki. Sú stjórn greip fremur til þess ráðs að hækka skatta til að reyna að loka fjárlagagatinu. Talsmenn stjórnarandstöðunnar segjast í Fréttablaðinu í gær ekkert skilja í því hvernig stjórnin ætli að skera meira niður, hafandi kastað frá sér tekjum með skattalækkunum. Svarið er náttúrlega: Með því að taka ákvarðanir sem núverandi stjórnarandstaða þorði ekki að taka og fækka ríkisstarfsmönnum. Formaður niðurskurðarnefndarinnar, Ásmundur Einar Daðason, var í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili þegar hann sagði í þingræðu að Framsóknarflokkurinn myndi „leggja til við afgreiðslu fjárlaga tillögur sem fela það í sér að lúxus- og gæluverkefni verði lögð til hliðar og velferðin verði varin.“ Ásmundur Einar vildi ekki láta fækka fólki í heilbrigðiskerfinu, heldur beina sjónum að utanlandsferðum, kokkteilboðum, utanríkisþjónustunni og þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins. Þetta er elzta og ódýrasta sort af lýðskrumi og húmbúkki, sem menn geta ekki lengur leyft sér þegar þeir bera einhverja ábyrgð. Það er áreiðanlega hægt að bjóða einhverjum upp á gos í staðinn fyrir hvítvín og þýða færri reglugerðir, en sparnaðurinn er smápeningar í samanburði við annan rekstur ríkisins. Stóru upphæðirnar liggja í velferðar- og menntakerfinu. Niðurskurðarhópurinn hlýtur að horfa til hugmynda Samráðsvettvangs um aukna hagsæld þegar hann setur saman tillögur sínar. Þar eru margar raunhæfar tillögur um að auka framleiðni og ná fram sparnaði í ríkisrekstrinum. Samráðsvettvangurinn vill til dæmis að fjárveitingar til heilbrigðisþjónustu hætti að ráðast af því hvar stjórnmálamönnum datt einu sinni í hug að byggja spítala og taki þess í stað mið af fremur einfaldri forskrift um íbúafjölda og raunverulega þjónustuþörf á einstökum landsvæðum. Þorir niðurskurðarhópurinn að leggja slíkt til? Þorir heilbrigðisráðherrann, sem barmar sér undan fjárskorti og vill frekar láta skera niður í öðrum ráðuneytum, að beita sér fyrir slíkri breytingu? Jafnvel þótt allt verði vitlaust á Húsavík eða Norðfirði? Samráðsvettvangurinn vill sameina skóla, setja reglur um lágmarksfjölda í bekkjum, stytta skólagönguna, fækka kennurum og borga þeim betri laun. Þorir nýja ríkisstjórnin að beita sér fyrir svo róttækum kerfisbreytingum og taka slaginn við sérhagsmuni starfsstétta og byggðarlaga? Það á ekkert að vera að afsaka það markmið að fækka starfsmönnum ríkisins. Það á frekar að segja skýrt að ríkisstjórnin þori að standa við það og gera þær breytingar sem gera þarf. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun
Við sögðum frá því í fréttum okkar á Stöð 2 í fyrrakvöld að hinn svokallaði niðurskurðarhópur ríkisstjórnarinnar hefði umboð til að leggja til fækkun ríkisstarfsmanna, sem ná mætti fram með kerfisbreytingum á borð við sameiningar stofnana. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var einhverra hluta vegna hálfvandræðalegur yfir þessu; sagði að það „gæti verið“ og „mætti hugsa sér“ að ríkisstarfsmönnum fækkaði „til langs tíma“ en engar verulegar uppsagnir væru fyrirhugaðar. Það er skrýtið, því að ef stjórnin ætlar að ná markmiðum sínum um sparnað í ríkisrekstrinum blasir við að það þarf að segja upp ríkisstarfsmönnum. Annars næst ekki árangur, vegna þess hvað launakostnaður er stór hluti af ríkisútgjöldunum. Síðasta ríkisstjórn skaut mörgum erfiðum ákvörðunum á frest. Hún var til dæmis dugleg að sameina stofnanir, en hikaði við að nýta hagræðinguna sem þannig næst fram og fækka fólki. Sú stjórn greip fremur til þess ráðs að hækka skatta til að reyna að loka fjárlagagatinu. Talsmenn stjórnarandstöðunnar segjast í Fréttablaðinu í gær ekkert skilja í því hvernig stjórnin ætli að skera meira niður, hafandi kastað frá sér tekjum með skattalækkunum. Svarið er náttúrlega: Með því að taka ákvarðanir sem núverandi stjórnarandstaða þorði ekki að taka og fækka ríkisstarfsmönnum. Formaður niðurskurðarnefndarinnar, Ásmundur Einar Daðason, var í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili þegar hann sagði í þingræðu að Framsóknarflokkurinn myndi „leggja til við afgreiðslu fjárlaga tillögur sem fela það í sér að lúxus- og gæluverkefni verði lögð til hliðar og velferðin verði varin.“ Ásmundur Einar vildi ekki láta fækka fólki í heilbrigðiskerfinu, heldur beina sjónum að utanlandsferðum, kokkteilboðum, utanríkisþjónustunni og þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins. Þetta er elzta og ódýrasta sort af lýðskrumi og húmbúkki, sem menn geta ekki lengur leyft sér þegar þeir bera einhverja ábyrgð. Það er áreiðanlega hægt að bjóða einhverjum upp á gos í staðinn fyrir hvítvín og þýða færri reglugerðir, en sparnaðurinn er smápeningar í samanburði við annan rekstur ríkisins. Stóru upphæðirnar liggja í velferðar- og menntakerfinu. Niðurskurðarhópurinn hlýtur að horfa til hugmynda Samráðsvettvangs um aukna hagsæld þegar hann setur saman tillögur sínar. Þar eru margar raunhæfar tillögur um að auka framleiðni og ná fram sparnaði í ríkisrekstrinum. Samráðsvettvangurinn vill til dæmis að fjárveitingar til heilbrigðisþjónustu hætti að ráðast af því hvar stjórnmálamönnum datt einu sinni í hug að byggja spítala og taki þess í stað mið af fremur einfaldri forskrift um íbúafjölda og raunverulega þjónustuþörf á einstökum landsvæðum. Þorir niðurskurðarhópurinn að leggja slíkt til? Þorir heilbrigðisráðherrann, sem barmar sér undan fjárskorti og vill frekar láta skera niður í öðrum ráðuneytum, að beita sér fyrir slíkri breytingu? Jafnvel þótt allt verði vitlaust á Húsavík eða Norðfirði? Samráðsvettvangurinn vill sameina skóla, setja reglur um lágmarksfjölda í bekkjum, stytta skólagönguna, fækka kennurum og borga þeim betri laun. Þorir nýja ríkisstjórnin að beita sér fyrir svo róttækum kerfisbreytingum og taka slaginn við sérhagsmuni starfsstétta og byggðarlaga? Það á ekkert að vera að afsaka það markmið að fækka starfsmönnum ríkisins. Það á frekar að segja skýrt að ríkisstjórnin þori að standa við það og gera þær breytingar sem gera þarf.