Hver er stórasti bróðir í heimi? Friðrika Benónýsdóttir skrifar 26. júlí 2013 06:00 Hallgrímur Helgason virðist hafa komið hressilega við kaunin á Framsóknarmönnum með pistlum sínum í Víðsjá á RÚV undanfarið. Bæði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Frosti Sigurjónsson alþingismaður hafa tjáð sig um málið í fjölmiðlum og eru ekki hressir. Frosti gekk svo langt í þættinum Í vikulokin að lýsa þeirri skoðun sinni að pistlahöfundar ættu „að skilja skoðanir sínar eftir heima“. Hvað skyldi hann þá ætlast til að þeir töluðu um í pistlum sínum? Veðrið, blómin og bíbí? Það er reyndar algengur misskilningur að pistlahöfundar sem fá inni með efni sitt í fjölmiðlum endurspegli á einhvern hátt stefnu viðkomandi fjölmiðils. Ekkert er fjær sanni eins og hver sá sem einhvern skilning hefur á rekstri fjölmiðla ætti að vita. Pistlahöfundar flytja hugvekjur sínar á eigin ábyrgð, undir eigin nafni og það er ekki til siðs að ritskoða innihald þeirra fyrir flutning eða birtingu, sem betur fer. Að setja fram þá kröfu að fjölmiðill fái ávallt einhvern sem er á andstæðri skoðun til að flytja næsta pistil er í besta falli hlægilegt og í versta falli skerðing á tjáningarfrelsi. Það eru þó ekki eingöngu of vinstri sinnaðir pistlahöfundar sem fara fyrir brjóstið á stjórnarliðum. Allur fréttaflutningur sem þeim er ekki þóknanlegur sætir árásum þeirra og er þar skemmst að minnast umtalaðrar loftárásargreinar sjálfs forsætisráðherrans, þar sem hann barmaði sér hástöfum yfir gagnrýninni umfjöllun fjölmiðla um ríkisstjórnina og störf hennar. Slíkt er nánast einsdæmi en sendir skýr skilaboð um stefnu ríkisstjórnarinnar hvað tjáningarfrelsi varðar, enda svo sem tæpast við öðru að búast af stjórn sem hefur pólitík Jónasar frá Hriflu að leiðarljósi. Svo ofarlega á forgangslista ríkisstjórnarinnar er það að ná stjórn á fjölmiðlaumfjöllun að eitt fyrsta mál sem lagt var fram á sumarþingi var frumvarp um breytingar á lögum um RÚV. Frumvarp sem gekk út á það að koma aftur á þeirri „eðlilegu“ skipan að stjórnmálaflokkar skipuðu sitt fólk í stjórn þess. Samþykkt frumvarpsins gekk greiðlega og nú eiga stjórnmálaflokkarnir sína varðhunda í stjórninni sem geta haft milligöngu um að losa þá við óæskilega starfsmenn og ráða aðra þóknanlegri í staðinn. Sannarlega þjóðlegt athæfi. Að markmiðið með þessum árásum og breytingum sé að tryggja hlutleysi í fréttaflutningi hljómar ekki sannfærandi í eyrum þeirra sem muna hvernig málum var háttað á árum áður. Því þrátt fyrir umræðuna um að fjölmiðlar landsins séu meira og minna í tröllahöndum þarf ekki mikla stúderingu á fréttaflutningi til að sjá að hann er mun faglegri og hlutlægari en hann var á þeim tíma þegar öll dagblöð voru málgögn stjórnmálaflokka, útvarpsstjóri var skipaður út frá stjórnmálaskoðunum og öll umræða skiptist í hægri og vinstri blokkir þar sem hvor um sig þóttist vera handhafi sannleikans. Það eru ekki tímar sem æskilegt er að fá aftur og full ástæða til að hvetja alla til að vera á varðbergi gagnvart þessum ritskoðunartilraunum stjórnmálamanna. Tjáningarfrelsið á ekki og má ekki lúta lögmálum rétthugsunar í nokkrum skilningi þess orðs. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Friðrika Benónýsdóttir Mest lesið Af hverju eru kennarar að fara í verkfall? Anton Már Gylfason Skoðun Hlýnun jarðar mun ekki valda heimsendi Sæunn Kjartansdóttir Skoðun Evrópusambandið eða nasismi Snorri Másson Skoðun Val Vigdísar Skúli Ólafsson Skoðun SVEIT – Kastið inn handklæðinu Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Opið bréf til Íslandspósts ohf. Gróa Jóhannsdóttir Skoðun Friður eða svikalogn? Hilmari Þór Hilmarssyni, prófessor, svarað Andri Þorvarðarson Skoðun Gaza getur ekki beðið lengur Hjálmtýr Heiðdal,Magnús Magnússon Skoðun Ísland yrði betra með aðild að Evrópusambandinu Jón Frímann Jónsson Skoðun Friður á jörðu Þröstur Friðfinnsson Skoðun
Hallgrímur Helgason virðist hafa komið hressilega við kaunin á Framsóknarmönnum með pistlum sínum í Víðsjá á RÚV undanfarið. Bæði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Frosti Sigurjónsson alþingismaður hafa tjáð sig um málið í fjölmiðlum og eru ekki hressir. Frosti gekk svo langt í þættinum Í vikulokin að lýsa þeirri skoðun sinni að pistlahöfundar ættu „að skilja skoðanir sínar eftir heima“. Hvað skyldi hann þá ætlast til að þeir töluðu um í pistlum sínum? Veðrið, blómin og bíbí? Það er reyndar algengur misskilningur að pistlahöfundar sem fá inni með efni sitt í fjölmiðlum endurspegli á einhvern hátt stefnu viðkomandi fjölmiðils. Ekkert er fjær sanni eins og hver sá sem einhvern skilning hefur á rekstri fjölmiðla ætti að vita. Pistlahöfundar flytja hugvekjur sínar á eigin ábyrgð, undir eigin nafni og það er ekki til siðs að ritskoða innihald þeirra fyrir flutning eða birtingu, sem betur fer. Að setja fram þá kröfu að fjölmiðill fái ávallt einhvern sem er á andstæðri skoðun til að flytja næsta pistil er í besta falli hlægilegt og í versta falli skerðing á tjáningarfrelsi. Það eru þó ekki eingöngu of vinstri sinnaðir pistlahöfundar sem fara fyrir brjóstið á stjórnarliðum. Allur fréttaflutningur sem þeim er ekki þóknanlegur sætir árásum þeirra og er þar skemmst að minnast umtalaðrar loftárásargreinar sjálfs forsætisráðherrans, þar sem hann barmaði sér hástöfum yfir gagnrýninni umfjöllun fjölmiðla um ríkisstjórnina og störf hennar. Slíkt er nánast einsdæmi en sendir skýr skilaboð um stefnu ríkisstjórnarinnar hvað tjáningarfrelsi varðar, enda svo sem tæpast við öðru að búast af stjórn sem hefur pólitík Jónasar frá Hriflu að leiðarljósi. Svo ofarlega á forgangslista ríkisstjórnarinnar er það að ná stjórn á fjölmiðlaumfjöllun að eitt fyrsta mál sem lagt var fram á sumarþingi var frumvarp um breytingar á lögum um RÚV. Frumvarp sem gekk út á það að koma aftur á þeirri „eðlilegu“ skipan að stjórnmálaflokkar skipuðu sitt fólk í stjórn þess. Samþykkt frumvarpsins gekk greiðlega og nú eiga stjórnmálaflokkarnir sína varðhunda í stjórninni sem geta haft milligöngu um að losa þá við óæskilega starfsmenn og ráða aðra þóknanlegri í staðinn. Sannarlega þjóðlegt athæfi. Að markmiðið með þessum árásum og breytingum sé að tryggja hlutleysi í fréttaflutningi hljómar ekki sannfærandi í eyrum þeirra sem muna hvernig málum var háttað á árum áður. Því þrátt fyrir umræðuna um að fjölmiðlar landsins séu meira og minna í tröllahöndum þarf ekki mikla stúderingu á fréttaflutningi til að sjá að hann er mun faglegri og hlutlægari en hann var á þeim tíma þegar öll dagblöð voru málgögn stjórnmálaflokka, útvarpsstjóri var skipaður út frá stjórnmálaskoðunum og öll umræða skiptist í hægri og vinstri blokkir þar sem hvor um sig þóttist vera handhafi sannleikans. Það eru ekki tímar sem æskilegt er að fá aftur og full ástæða til að hvetja alla til að vera á varðbergi gagnvart þessum ritskoðunartilraunum stjórnmálamanna. Tjáningarfrelsið á ekki og má ekki lúta lögmálum rétthugsunar í nokkrum skilningi þess orðs.