Handbolti

Stórleikur á afmælinu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Alfreð Gíslason
Alfreð Gíslason mynd / getty Images
Fyrsti stórleikur tímabilsins í þýska handboltanum er í dag þegar Evrópumeistarar Hamburg fá Þýskalandsmeistara Kiel í heimsókn.

Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í Kiel hafa byrjað vel og unnið tvo fyrstu leiki tímabilsins en Hamburg tapaði aftur á móti gegn nýliðum Bergischer í síðustu viku.

Kiel hefur verið sigursælasta lið Þýskalands undanfarin ár en stendur nú á ákveðnum tímamótum.

„Kiel hefur misst gríðarlega sterka leikmenn og er í raun með lakara lið núna á pappírnum en síðastliðin ár,“ segir landsliðsmaðurinn Snorri Steinn Guðjónsson.

„Þetta voru ekkert venjulegir menn sem Alfreð missti í sumar og strákar sem hafa borið þetta lið á herðum sér síðustu tímabil. Það sem mun vinna með Kiel í vetur að þeir eru með einn besta þjálfara í heiminum,“ segir Snorri en Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, er 54 ára í dag og spurning hvort hann fái almennilega afmælisgjöf.

„Ef ég þekki Alfreð rétt þá mun hann bara líta á það sem ákveðna áskorun að móta svona lið á ný og koma tvíefldur til leiks.“

Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð2 Sport og hefst hann klukkan 13.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×