Bókmenntahátíð fyrir hvern? Friðrika Benónýsdóttir skrifar 10. september 2013 06:00 Bókmenntahátíð í Reykjavík hefst í ellefta sinn á morgun og stendur til 15. september. Þar mæta höfundar frá flestum heimshornum, lesa úr verkum sínum, taka þátt í pallborðsumræðum, ræða við lesendur sína og útgefendur, sýna sig og sjá aðra. Í þetta sinn er auk þess á sama tíma haldinn í Reykjavík ársfundur PEN-samtakanna, sem eru samtök rithöfunda frá 100 löndum, þannig að bærinn er undirlagður af bókmenntafólki í nokkra daga, sumum til mikillar hamingju, öðrum til ama og enn öðrum til axlayppinga. Er þetta ekki hátimbruð snobbsamkoma fyrir ofurstyrkta listamenn í 101? spyr almenningur. Snýst þetta ekki bara um eitthvert útlendingadekur? Skiptir þessi hátíð nokkru máli fyrir hinn almenna Íslending? Allt eru þetta góðar og gildar spurningar og eðlilegt og hollt að fólk velti fyrir sér gildi bókmenntanna og menningar yfirleitt í því moldroki sem þyrlað hefur verið upp í kringum þá umræðu undanfarið. En um leið er líka eðlilegt að staldra við og spyrja hvað það sé sem ríkisstjórnin á við með þjóðmenningunni sem sumum ráðherrum verður svo tíðrætt um. Af tali þeirra að dæma mætti ætla að hér hefði sprottið upp einhver sérstæð útgáfa menningar sem ekki eigi sér hliðstæðu annars staðar. Fátt verður hins vegar um svör þegar spurt er hvaðan hún sé þá ættuð og enn færra sé spurt hvernig hún sé skilgreind. Getur þjóð til dæmis átt sér þjóðmenningu ef hún á ekki eigið tungumál? Getur þjóðmenning sprottið upp úr engu án erlendra áhrifa eða tengsla við það sem hæst ber í heiminum á hverjum tíma? Svarið við báðum spurningum er blákalt nei. Tungumálið er það sem einna helst skilgreinir okkur sem þjóð og ef við glötum því er tómt mál að tala um þjóðmenningu þar sem við gætum ekki lesið okkar stærsta – margir segja eina – menningararf, fornsögurnar, og misstum þar með tengslin við það hver við erum og hvaðan við komum. Sá arfur sýnir líka svart á hvítu að ekkert sprettur af engu og að án þekkingar á bókmenntum og hugsunarhætti annarra þjóða verður engin framþróun í eigin menningu. Þær voru ekki skrifaðar af kotakörlum sem aldrei höfðu komið út fyrir túngarðinn heldur af víðlesnum mönnum með þekkingu á fornritum Grikkja og Rómverja sem sátu margir hverjir á vernduðum vinnustöðum í klaustrum og þurftu ekki nokkrar áhyggjur að hafa af því hvort bækurnar þeirra næðu að standa undir sér eða ekki. Þeir stóðu í bréfaskriftum við aðra munka í klaustrum út um alla Evrópu og fylgdust vel með því sem þar var í deiglunni. Þeir voru eiginlega á stöðugri bókmenntahátíð enda varð afrakstur vinnu þeirra í samræmi við það og er enn, mörgum öldum síðar, það sem helst heldur nafni íslenskrar menningar á lofti utan landsteinanna. Þjóðmenningin okkar, sem við erum svo stolt af á tyllidögum, spratt sem sagt að hluta til úr erlendu umhverfi og þarfnast enn í dag stöðugrar vökvunar úr erlendum brunnum. Þess vegna þurfum við bókmenntahátíð. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Friðrika Benónýsdóttir Mest lesið Af hverju eru kennarar að fara í verkfall? Anton Már Gylfason Skoðun Val Vigdísar Skúli Ólafsson Skoðun Hlýnun jarðar mun ekki valda heimsendi Sæunn Kjartansdóttir Skoðun Evrópusambandið eða nasismi Snorri Másson Skoðun Friður á jörðu Þröstur Friðfinnsson Skoðun Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun SVEIT – Kastið inn handklæðinu Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Opið bréf til Íslandspósts ohf. Gróa Jóhannsdóttir Skoðun Friður eða svikalogn? Hilmari Þór Hilmarssyni, prófessor, svarað Andri Þorvarðarson Skoðun Gaza getur ekki beðið lengur Hjálmtýr Heiðdal,Magnús Magnússon Skoðun
Bókmenntahátíð í Reykjavík hefst í ellefta sinn á morgun og stendur til 15. september. Þar mæta höfundar frá flestum heimshornum, lesa úr verkum sínum, taka þátt í pallborðsumræðum, ræða við lesendur sína og útgefendur, sýna sig og sjá aðra. Í þetta sinn er auk þess á sama tíma haldinn í Reykjavík ársfundur PEN-samtakanna, sem eru samtök rithöfunda frá 100 löndum, þannig að bærinn er undirlagður af bókmenntafólki í nokkra daga, sumum til mikillar hamingju, öðrum til ama og enn öðrum til axlayppinga. Er þetta ekki hátimbruð snobbsamkoma fyrir ofurstyrkta listamenn í 101? spyr almenningur. Snýst þetta ekki bara um eitthvert útlendingadekur? Skiptir þessi hátíð nokkru máli fyrir hinn almenna Íslending? Allt eru þetta góðar og gildar spurningar og eðlilegt og hollt að fólk velti fyrir sér gildi bókmenntanna og menningar yfirleitt í því moldroki sem þyrlað hefur verið upp í kringum þá umræðu undanfarið. En um leið er líka eðlilegt að staldra við og spyrja hvað það sé sem ríkisstjórnin á við með þjóðmenningunni sem sumum ráðherrum verður svo tíðrætt um. Af tali þeirra að dæma mætti ætla að hér hefði sprottið upp einhver sérstæð útgáfa menningar sem ekki eigi sér hliðstæðu annars staðar. Fátt verður hins vegar um svör þegar spurt er hvaðan hún sé þá ættuð og enn færra sé spurt hvernig hún sé skilgreind. Getur þjóð til dæmis átt sér þjóðmenningu ef hún á ekki eigið tungumál? Getur þjóðmenning sprottið upp úr engu án erlendra áhrifa eða tengsla við það sem hæst ber í heiminum á hverjum tíma? Svarið við báðum spurningum er blákalt nei. Tungumálið er það sem einna helst skilgreinir okkur sem þjóð og ef við glötum því er tómt mál að tala um þjóðmenningu þar sem við gætum ekki lesið okkar stærsta – margir segja eina – menningararf, fornsögurnar, og misstum þar með tengslin við það hver við erum og hvaðan við komum. Sá arfur sýnir líka svart á hvítu að ekkert sprettur af engu og að án þekkingar á bókmenntum og hugsunarhætti annarra þjóða verður engin framþróun í eigin menningu. Þær voru ekki skrifaðar af kotakörlum sem aldrei höfðu komið út fyrir túngarðinn heldur af víðlesnum mönnum með þekkingu á fornritum Grikkja og Rómverja sem sátu margir hverjir á vernduðum vinnustöðum í klaustrum og þurftu ekki nokkrar áhyggjur að hafa af því hvort bækurnar þeirra næðu að standa undir sér eða ekki. Þeir stóðu í bréfaskriftum við aðra munka í klaustrum út um alla Evrópu og fylgdust vel með því sem þar var í deiglunni. Þeir voru eiginlega á stöðugri bókmenntahátíð enda varð afrakstur vinnu þeirra í samræmi við það og er enn, mörgum öldum síðar, það sem helst heldur nafni íslenskrar menningar á lofti utan landsteinanna. Þjóðmenningin okkar, sem við erum svo stolt af á tyllidögum, spratt sem sagt að hluta til úr erlendu umhverfi og þarfnast enn í dag stöðugrar vökvunar úr erlendum brunnum. Þess vegna þurfum við bókmenntahátíð.
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun