Tak for alt Ólafur Þ. Stephensen skrifar 14. nóvember 2013 06:00 Mörgu ljótu og neikvæðu úr sameiginlegri sögu Íslands og Danmerkur hefur löngum verið haldið á lofti hér á landi. Þrátt fyrir þrotlaust endurskoðunarstarf yngri sagnfræðinga situr einokunarverzlunin, maðkaða mjölið, íslenzku kirkjuklukkurnar sem voru bræddar upp í dönsk hallarþök og fangelsisdómar fyrir snærisþjófnað allt býsna fast í þjóðarminninu. Við getum kannski ekki kennt því um lengur, en fyrr á árum var ein af ástæðunum fyrir því hvað margir Íslendingar lærðu litla dönsku þrátt fyrir margra ára skyldunám sú að sögukennararnir rifu markvisst niður það sem dönskukennararnir reyndu að byggja upp með því að vekja hjá okkur jákvæðan áhuga á landi og þjóð. Staðreyndin er nú samt að Danir voru fremur mild og elskuleg herraþjóð, svona í alþjóðlegum samanburði. Þeir beittu sér fyrir ýmiss konar umbótum og framförum sem Íslendingar voru ekki alltaf spenntir fyrir. Það var ekki bara einstakri friðarást Íslendinga að þakka að sjálfstæðisbaráttan fór fram án blóðsúthellinga; afstaða Dana átti þar sinn ríka þátt. Þeir gerðu heldur enga alvörutilraun til að troða tungu sinni og menningu upp á Íslendinga, þótt við yrðum auðvitað fyrir áhrifum af hvoru tveggja í meira en fimm alda sambúð í sama ríki. Þvert á móti báru Danir virðingu fyrir íslenzkri menningu. Danska málfræðingnum Rasmusi Christian Rask er stundum þakkað að hafa með starfi sínu orðið íslenzkunni til bjargar. Hátíðahöldin í tilefni af 350 ára afmæli handritasafnarans og fræðimannsins Árna Magnússonar eru ágæt áminning um það hvað samband Dana og Íslendinga er þrátt fyrir allt einstakt meðal þjóða – og í algjörum sérflokki meðal fyrrverandi herraþjóða og hjálendna. Margrét Þórhildur Danadrottning og Ólafur Ragnar Grímsson forseti fara nánast hönd í hönd um bæinn og taka þátt í hátíðahöldunum, sem aðallega snúast um verðmætin sem Árni bjargaði frá glötun – handritin. Það er algjört einsdæmi í veraldarsögunni að fyrrverandi herraþjóð skili hjálendunni jafndýrmætum menningarverðmætum og handritin eru. Það er einfaldlega ekki hægt að finna neinar hliðstæður, hvorki fyrr né síðar. Handritin eru ekki bara Íslendingum mikilvæg; þau voru líka talin þjóðargersemi í Danmörku og hluti af sameiginlegum norrænum menningararfi. Vinarbragð Dana er ekki sízt einstakt fyrir þær sakir að þrýstingurinn á að Íslendingum yrðu afhent handritin kom að neðan; frá samtökum almennings, en danska menningarelítan var heldur á því að halda í skinnskræðurnar. Það er þess vegna líka alveg prýðilega viðeigandi að á þessum tímamótum er sameiginlegrar sögu Danmerkur og Íslands minnzt með margvíslegum hætti, til dæmis með útgáfu bókar Jóns Þ. Þór og Guðjóns Friðrikssonar um Kaupmannahöfn sem höfuðborg Íslands í 500 ár. Í gamla höfuðstaðnum er íslenzk saga við hvert fótmál. Við eigum fyrir löngu að vera vaxin upp úr tautinu um danska kúgun, sem var kannski nauðsynlegt í sjálfstæðisbaráttunni. Nú eigum við bara að rétta úr okkur og segja takk fyrir allt. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Greiðsla með Vísakorti tryggir ekki endurgreiðslu – forfallatryggingar gagnslausar þegar mest á reynir Erna Guðmundsdóttir Skoðun Þau eru framtíðin – en fá ekki að njóta nútímans Sigurður Kári Skoðun Trump les tölvupóstinn þinn Mörður Áslaugarson Skoðun „Já, hvað með bara að skjóta hann!“ Þórhildur Hjaltadóttir Skoðun Heimar sem þurfa nýja umræðu! Sigurður Árni Reynisson Skoðun Ísrael – brostnir draumar og lygar Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Við berum öll ábyrgð Hjördís Sigurðardóttir Skoðun Gerum betur í heilbrigðismálum Guðjón S. Brjánsson Skoðun Hvers vegna þegir kristin, vestræn menning? Ómar Torfason Skoðun 52 milljarðar/ári x 30 ár = EES Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun
Mörgu ljótu og neikvæðu úr sameiginlegri sögu Íslands og Danmerkur hefur löngum verið haldið á lofti hér á landi. Þrátt fyrir þrotlaust endurskoðunarstarf yngri sagnfræðinga situr einokunarverzlunin, maðkaða mjölið, íslenzku kirkjuklukkurnar sem voru bræddar upp í dönsk hallarþök og fangelsisdómar fyrir snærisþjófnað allt býsna fast í þjóðarminninu. Við getum kannski ekki kennt því um lengur, en fyrr á árum var ein af ástæðunum fyrir því hvað margir Íslendingar lærðu litla dönsku þrátt fyrir margra ára skyldunám sú að sögukennararnir rifu markvisst niður það sem dönskukennararnir reyndu að byggja upp með því að vekja hjá okkur jákvæðan áhuga á landi og þjóð. Staðreyndin er nú samt að Danir voru fremur mild og elskuleg herraþjóð, svona í alþjóðlegum samanburði. Þeir beittu sér fyrir ýmiss konar umbótum og framförum sem Íslendingar voru ekki alltaf spenntir fyrir. Það var ekki bara einstakri friðarást Íslendinga að þakka að sjálfstæðisbaráttan fór fram án blóðsúthellinga; afstaða Dana átti þar sinn ríka þátt. Þeir gerðu heldur enga alvörutilraun til að troða tungu sinni og menningu upp á Íslendinga, þótt við yrðum auðvitað fyrir áhrifum af hvoru tveggja í meira en fimm alda sambúð í sama ríki. Þvert á móti báru Danir virðingu fyrir íslenzkri menningu. Danska málfræðingnum Rasmusi Christian Rask er stundum þakkað að hafa með starfi sínu orðið íslenzkunni til bjargar. Hátíðahöldin í tilefni af 350 ára afmæli handritasafnarans og fræðimannsins Árna Magnússonar eru ágæt áminning um það hvað samband Dana og Íslendinga er þrátt fyrir allt einstakt meðal þjóða – og í algjörum sérflokki meðal fyrrverandi herraþjóða og hjálendna. Margrét Þórhildur Danadrottning og Ólafur Ragnar Grímsson forseti fara nánast hönd í hönd um bæinn og taka þátt í hátíðahöldunum, sem aðallega snúast um verðmætin sem Árni bjargaði frá glötun – handritin. Það er algjört einsdæmi í veraldarsögunni að fyrrverandi herraþjóð skili hjálendunni jafndýrmætum menningarverðmætum og handritin eru. Það er einfaldlega ekki hægt að finna neinar hliðstæður, hvorki fyrr né síðar. Handritin eru ekki bara Íslendingum mikilvæg; þau voru líka talin þjóðargersemi í Danmörku og hluti af sameiginlegum norrænum menningararfi. Vinarbragð Dana er ekki sízt einstakt fyrir þær sakir að þrýstingurinn á að Íslendingum yrðu afhent handritin kom að neðan; frá samtökum almennings, en danska menningarelítan var heldur á því að halda í skinnskræðurnar. Það er þess vegna líka alveg prýðilega viðeigandi að á þessum tímamótum er sameiginlegrar sögu Danmerkur og Íslands minnzt með margvíslegum hætti, til dæmis með útgáfu bókar Jóns Þ. Þór og Guðjóns Friðrikssonar um Kaupmannahöfn sem höfuðborg Íslands í 500 ár. Í gamla höfuðstaðnum er íslenzk saga við hvert fótmál. Við eigum fyrir löngu að vera vaxin upp úr tautinu um danska kúgun, sem var kannski nauðsynlegt í sjálfstæðisbaráttunni. Nú eigum við bara að rétta úr okkur og segja takk fyrir allt.
Greiðsla með Vísakorti tryggir ekki endurgreiðslu – forfallatryggingar gagnslausar þegar mest á reynir Erna Guðmundsdóttir Skoðun
Greiðsla með Vísakorti tryggir ekki endurgreiðslu – forfallatryggingar gagnslausar þegar mest á reynir Erna Guðmundsdóttir Skoðun