Handbolti

Veðmálagróði markvarðarins kemur Alfreð ekki við

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Alfreð ósáttur við gang mála í leik í Meistaradeild Evrópu.
Alfreð ósáttur við gang mála í leik í Meistaradeild Evrópu. Nordicphotos/Getty
 „Það er brjálað að gera alla daga. Ég á eftir að enda í spennitreyju talandi einhverja vitleysu,“ sagði Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, léttur er blaðamaður náði loks á hann en hann var þá að undirbúa næsta leik.

Það er ekki heiglum hent að ná tali af Alfreð enda er hann annálaður vinnuþjarkur sem gerir þess utan allt sjálfur í stað þess að setja klippivinnu og annað í hendur aðstoðarmanna.

Menn eins og Alfreð eru oft kallaðir vinnualkar en Alfreð veit sem er að það er þrotlaus vinna að halda Kiel á toppnum. En verður hann ekki stundum þreyttur á þessari stanslausu vinnu?

„Jú, það kemur fyrir. Ég verð stundum alveg bilaður á þessu en svona er starfið og þetta er líka mitt áhugamál. Það eru til miklu verri störf. Það var ekkert sérstaklega gaman að naglhreinsa í gamla daga og mun verr borgað þess utan,“ segir Alfreð og hlær.





Kóngurinn í kiel Alfreð hefur náð ótrúlegum árangri síðustu fimm ár hjá Kiel og byggir nú upp nýtt meistaralið hjá þessu stórveldi í evrópskum handbolta.nordicphotos/bongarts
Safnar titlum

Akureyringurinn hefur náð hreint ótrúlegum árangri með Kiel síðan hann tók við stjórnartaumunum árið 2008. Hann er búinn að vinna þýsku deildina fjórum sinnum á fimm árum, bikarmeistaratitlarnir eru tveir sem og titlarnir í Meistaradeildinni. Kiel tapaði þess utan einum úrslitaleik í Meistaradeildinni. Í heildina er hann búinn að vinna ellefu stóra titla á þessum fimm árum.

Það eru ákveðin tímamót hjá Kiel í ár og Alfreð er að byggja upp nýtt lið. Heimsklassamennirnir Thierry Omeyer, Marcus Ahlm, Momir Ilic og Daniel Narcisse eru allir horfnir á braut. Það er enginn smámissir.

Í þeirra stað eru komnir Johan Sjöstrand markvörður og svo skytturnar ungu Rasmus Lauge frá Danmörku og Wael Jallouz frá Túnis. Þessir leikmenn fylla ekki alveg það skarð sem hinir leikmennirnir skildu eftir sig en engu að síður er Kiel að gera frábæra hluti.

Liðið er í öðru sæti deildarinnar, á einn leiki inni og getur komist aftur á toppinn. Það er einnig á toppi síns riðils í Meistaradeildinni.

„Ég er mjög sáttur við gengið. Ég bjóst ekki við þessari stöðu hjá okkur á þessum tíma. Byrjun tímabilsins var erfið því það voru líka meiðsli hjá okkur. Það má samt ekkert gerast hjá okkur með meiðsli. Ef ég missi lykilmann út í meiðsli þá verður spilið allt annað. Það vantar breidd hjá okkur,“ segir Alfreð, en hvað með nýju skytturnar ungu?

„Ég græði á því að ég rúllaði liðinu mikið síðustu ár og allir sem hafa verið með hópnum undanfarin ár hafa talsverða reynslu. Lauge er mjög seigur leikmaður. Hann var heppinn að Aron var meiddur í upphafi tímabils og því þurfti að hann spila mikið og stóð sig ágætlega. Hann kemur úr danska boltanum og var því fljótur að komast inn í hlutina hérna,“ segir Alfreð en það var ekki eins auðvelt fyrir Jallouz.

„Hann kemur beint úr boltanum í Túnis þar sem hraðinn er allt annar sem og spilið. Þetta er því erfitt fyrir hann og mikið að læra. Þessi drengur hefur samt gríðarlega líkamsburði og hefur svakalegan möguleika á því að verða frábær leikmaður. Það þarf að vinna með hann og það mun taka tíma. Hann er ungur og þarf að slípa hann til.“

Lið Kiel mun styrkjast enn frekar næsta sumar þegar Króatinn magnaði, Domagoj Duvnjak, gengur í raðir Kiel frá Hamburg. Alfreð segir að það verði ekkert mál að spila honum og Aroni saman.

„Bæði hann og Aron geta spilað skyttustöðuna og miðjuna. Það eru margir að spyrja hvað ég sé að gera með tvo miðjumenn saman en ég er sannfærður um að þeir munu spila megnið af tímanum saman inni á vellinum. Þeir munu skiptast á að spila skyttu og miðju.“

nordicphotos/bongarts
Það var mikið áfall fyrir Kiel að missa franska markvörðinn Thierry Omeyer sem verið hefur besti markvörður heims undanfarin ár. Maður sem vann leiki. Í hans stað kom Svíinn Sjöstrand og hann ver mark Kiel ásamt landa sínum, Andreas Palicka.

„Þeir hafa verið gagnrýndir fyrir að verja ekki nóg. Þeir hafa vissulega átt leiki þar sem þeir hafa ekki varið nóg en Sjöstrand er með þeim bestu í deildinni samkvæmt tölfræðinni og Palicka er ekki langt undan. Þeir eru auðvitað ekki jafn miklir yfirburðamenn og Omeyer var. Við vissum að þeir þyrftu tíma og ég læt þá báða spila mikið. Ég hef trú á þeim og sé framtíð í þeim. Þeir eiga eftir að bæta sig mikið þegar þeir komast inn í vinnsluna hjá vörninni okkar.“

Sjöstrand hefur verið mikið í fréttum upp á síðkastið eftir að hann vann yfir 100 milljónir króna á þrem vikum á veðreiðavellinum. Hvernig höndlar Alfreð það mál?

„Það kemur mér ekkert við hvað hann gerir utan vallar. Það er miklu betra samt að hann græði haug af peningum í hverri viku en að hann tapi haug af peningum. Eina sem ég vil fá frá honum er að hann verji 50 prósent af skotunum sem hann fær á sig. Það er það eina sem skiptir mig máli.“

nordicphotos/bongarts
Vill endilega vinna deildina í ár

Þó að lið Kiel sé mikið breytt eru markmiðin alltaf þau sömu. Það er að vinna titla.

„Ég veit sem er að það verður erfiðara að komast í úrslitahelgina í Meistaradeildinni með þetta lið. Megináherslan hjá mér er á deildina. Það segja allir að þetta sé millibilsár hjá okkur og nú eigi allir möguleika á því að vinna þýsku deildina. Þá vil ég alveg endilega vinna deildina,“ segir Alfreð ákveðinn.

Fyrrverandi herbergisfélagi Alfreðs í íslenska landsliðinu, Guðmundur Guðmundsson, segir skilið við þýska boltann næsta sumar til þess að þjálfa danska landsliðið.

„Ég skil hann mjög vel. Þetta er mjög gott fyrir hann og Danina. Þessi vinna getur verið mjög þreytandi til lengdar. Að spila á þriggja daga fresti getur tekið á,“ segir Alfreð en hvenær fer hann aftur að þjálfa landslið?

„Ég skoða það eftir tímabilið 2019. Segjum það bara,“ sagði Akureyringurinn sigursæli og hló dátt.

Aron Pálmarsson skoraði átta mörk fyrir Kiel í bikartapi gegn Rhein-Neckar Löwen í gærkvöldi.Nordicphotos/Getty
Aron verður burðarás næstu tíu árin

Aron Pálmarsson er nú búinn að vera undir handleiðslu Alfreðs í fimm ár. Hlutverk hans hefur farið stækkandi með hverju árinu og nú er kominn tími á að hann verði einn af burðarásum liðsins.

„Aron er bara 23 ára en er samt kominn með gríðarlega reynslu. Hann á að vera einn af burðarásum þessa liðs næstu tíu árin ef allt gengur upp,“ segir Alfreð en hann er afar ánægður með hinn unga landa sinn.

„Hann hefur staðið sig frábærlega og stendur vel undir þeirri ábyrgð sem hann fær. Leikur hans er orðinn mun stöðugri. Hann hefur samt fengið ábyrgð á síðustu árum og komið inn í fjölmörgum lykilleikjum. Hann hefur leyst síðasta korterið í stórum leikjum frá árinu 2010. Hann hefur sýnt að hann er maður sem missir ekki hausinn þó svo hann sé undir pressu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×