Handbolti

Stella enn með ský fyrir auganu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stella, til hægri, meiddist í æfingaleik gegn Sviss.
Stella, til hægri, meiddist í æfingaleik gegn Sviss. fréttablaðið/stefán
Stella Sigurðardóttir hefur ekki fengið fulla sjón enn eftir að hún fékk þungt högg á augað í æfingaleik með íslenska landsliðinu í síðasta mánuði.

„Ég er aðeins byrjuð að æfa á ný. Ég er búin að taka tvær handboltaæfingar en annars hef ég mest verið að lyfta og þess háttar,“ segir Stella sem er á mála hjá danska liðinu SönderjyskE.

„En ég er ekki enn komin með fulla sjón aftur. Það er enn smá ský fyrir auganu. Ég er enn að taka dropa sem ég fékk hjá læknunum á Íslandi og á að taka þá þangað til í næstu viku. Ef þetta verður ekki komið þá mun ég fara aftur til þeirra þegar ég kem heim í jólafrí,“ segir hún.

Stella hefur þó ekki miklar áhyggjur af auganu, þó svo að hún vildi gjarnan fá fulla sjón aftur sem fyrst. „Augnbotninn er heill sem er fyrir öllu og læknarnir segja að ég eigi að fá fullan bata. Þetta er því vonandi allt að koma hjá mér.“

Stella stundar háskólanám samhliða handboltanum og er nýbúin með jólaprófin. „Það var svolítið erfitt að lesa bara með öðru auganu en þetta gekk þó sæmilega hjá mér,“ sagði hún.

Auk Stellu leika Karen Knútsdóttir og Ramune Pekarskyte með SönderjyskE en þjálfari liðsins er Ágúst Þór Jóhansson landsliðsþjálfari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×