Handbolti

Hún hefur ekki misst úr kvöldverð síðan hún fæddist

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dragana Cvijic var frábær með Serbum á móti Noregi. Hér fagnar hún sigrinum með liðsfélaga sínum.
Dragana Cvijic var frábær með Serbum á móti Noregi. Hér fagnar hún sigrinum með liðsfélaga sínum. Mynd/NordicPhotos/Getty
Dragana Cvijic átti stórkostlegan leik með Serbum þegar liðið skellti Norðmönnum á HM kvenna á miðvikudagskvöldið. Átta sinnum skaut hún á markið og alltaf hafnaði boltinn í netinu. Þá tók hún hraustlega á því í vörninni gegn norsku stelpum sem áttu fá svör.

Lýsandi leiksins, Harald Bredeli, á TV 2 hefur verið gagnrýndur fyrir orðaval sitt á meðan leik stóð. Cvijic er stór og stæðileg, 185 cm á hæð og 95 kíló. Varð honum tíðrætt um líkamsbyggingu Serbans.

„Við sjáum að hún hefur ekki misst úr kvöldverð síðan hún fæddist fyrir 23 árum,“ sagði Bredeli þegar Cvijic nældi í vítakast. Verdens Gang fjallar um málið.

Else-Marthe Sörlie Lybekk, sem spilaði 215 landsleiki fyrir Noreg, sagði lýsandann líklega hafa tjáð sig án þess að hugsa. Minnti hún á átta ára gamalt atvik þegar Bredeli sagði í beinni útsendingu að handboltakonan Gro Hammerseng væri glæsilegasta lesbía sem Noregur hefði alið. Lýsandinn gerði sér ekki grein fyrir að kveikt væri á hljóðnemanum.

Fyrir vikið var Hammerseng komin opinberlega út úr skápnum gegn vilja sínum.

Eftir leikinn gerði Bredeli tapleikinn upp á samfélagsmiðlinum Twitter í nokkrum orðum.

„Okkar leikmenn og liðið hafa átt betri daga. Serbar eiga mikið hrós skilið og spiluðu sinn besta leik frá upphafi. Cvijic sýndi fram á mikilvægi kvöldverðar.“

Lybekk segir handboltafólk af öllum stærðum blómstra í íþróttinni.

„Hún er einn besti línumaður í heimi og leiðtogi bæði í félagsliði sínu og landsliði. Svona ummæli eiga ekki heima í norsku sjónvarpi. Það eru til aðrar leiðir til þess að vera fyndinn.“

Dragana CvijicMynd/NordicPhotos/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×