Handbolti

Norskur markvörður til Eyja

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gunnar Magnússon, þjálfari ÍBV.
Gunnar Magnússon, þjálfari ÍBV. Mynd/Daníel
Henrik Eidsvag, 21 árs gamall norskur markvörður, hefur samið við ÍBV og mun spila með liðinu í Olísdeild karla út þessa leiktíð.

Fimmeinn.is greindi frá þessu í gær og Gunnar Magnússon, þjálfari ÍBV, staðfesti þetta í samtali við Vísi.

„Þetta er strákur sem ég þjálfaði í Kristiansund á sínum tíma,“ sagði Gunnar en hann kom heim frá Noregi í sumar og tók við ÍBV. „Hann spilaði í Hafnarfjarðarmótinu í ágúst en skipti svo um lið eftir það.“

Hlutirnir gengu þó ekki upp hjá nýju félagi og Eidsvag var laus allra mála þegar hann hafði samband við Gunnar.

„Hann hringdi vegna þess að hann vantaði lið. Hann var til í að koma til Íslands og taka þátt í smá ævintýri hér,“ segir Gunnar sem hefur trú á Eidsvag.

„Hann er óskrifað blað en kemur til með að breikka leikmannahópinn okkar og búa til meiri samkeppni um markvarðastöðuna. Við höfum átt fína kafla inn á milli í markvörslunni en heilt yfir hefur vantað stöðugleika.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×