Handbolti

Norskur markvörður gagnrýnir Þóri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þórir Hergeirsson, þjálfari norska landsliðsins.
Þórir Hergeirsson, þjálfari norska landsliðsins. Nordic Photos / Getty
Sakura Hauge, markvörður Tertnes í Noregi, hefur ekkert heyrt í Þóri Hergeirssyni, þjálfara norska landsliðsins, undanfarin tvö ár og er óánægð með framkomu hans.

Hauge var í æfingahópi norska liðsins fyrir EM 2010 en var ekki valinn í lokahóp Þóris. Þá fór hún heldur ekki með á Ólympíuleikana í Lundúnum í fyrra en þar stóð Noregur uppi sem sigurvegari.

Hauge hefur aldrei spilað með A-landsliði Noregs en á að baki leiki með yngri landsliðum.

„Ég geri allt til að halda mér í standi og mér finnst ég ekki vera langt frá því að komast í landsliðið,“ sagði hún í samtali við norska fjölmiðla.

„En maður heyrir ekki mikið í forráðamönnum landsliðsins eftir að maður dettur úr liðinu. Ég hafði vonast til að það yrði betur fylgst með manni,“ sagði hún.

„Ég hef aldrei fengið almennilegt svar við því af hverju ég er ekki í liðinu, eða þá að hvaða leyti ég þurfi að bæta minn leik. Og það eru pottþétt fleiri en ég sem velta þessu sama fyrir sér.“

Ummæli Hauge voru borin undir Þóri en svar hans var einfalt. „Hún er ekki gleymd. En hún passar ekki í okkar áætlanir eins og er,“ sagði Þórir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×