Handbolti

Sverre fer frá Grosswallstadt í sumar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sverre, lengst til vinstri, í leik með Grosswallstadt.
Sverre, lengst til vinstri, í leik með Grosswallstadt. Nordic Photos / Getty
Varnarjaxlinn Sverre Andreas Jakobsson mun yfirgefa herbúðir þýska B-deildarfélagsins Grosswallstadt í sumar en hann hefur verið fyrirliði liðsins undanfarin ár.

Sverre var samningsbundinn félaginu til 2015 en forráðamenn Grosswallstadt ákváðu að nýta sér uppsagnarákvæði í samningnum, eftir því sem kemur fram á heimasíðu félagsins.

„Sverre hefur verið félaginu gríðarlega mikilvægur undanfarin fjögur ár og því var þetta einstaklega erfið ákvörðun,“ sagði Andreas Klein, framkvæmdarstjóri Grosswallstadt.

„Í áætlunum okkar fyrir næsta tímabil þurfum við að taka mið af þörfum okkar innan sem utan vallarins. Þetta er ein af þeim ákvörðunum sem við þurfum að taka,“ sagði Klein enn fremur.

„Síðustu leikir okkar hafa sýnt að við þurfum að styrkja okkur í skyttustöðunni og vegna fjárhagsstöðu félagsins getum við ekki boðið Sverre almennilegan samning.“

Klein sagði einnig að það hefði verið von félagsins að Sverre gæti starfað áfram hjá því eftir að leikmannaferlinum lýkur en að Sverre hafi að undanförnu gefið í skyn að hann hafi fremur í hyggju að flytja aftur til Íslands með fjölskyldu sinni þegar að því kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×