Fyrir einhvern sem reynir að fylgjast með nýjustu trendum á internetinu, hugsanlega í viðleitni til að sannfæra sjálfan sig og aðra um að hann sé ennþá ungur og töff, var það nokkuð áfall að komast að því að það var til eitthvað sem hét Vine og nógu vinsælt til að skapa hættuástand í Smáralind. Sumum leið vafalaust eins og hellisbúa sem fyrir tilviljun uppgötvar eldinn þegar kviknar í húsinu hans út frá rafmagni.
Frá Ástralíu berast okkur fregnir af ört vaxandi samfélagsmiðlasporti sem virðist vera taka janúar með trompi og gæti orðið það næsta sem við fussum yfir. Það felur í sér drykkju, fíflagang og í sumum tilvikum lífshættu, þannig að eflaust gæti þetta orðið ansi vinsælt hér á Íslandi.
Neknomination - Þar sem aðili "neknominator" stútar bjór í einum sopa, setur á netið og skorar á einn eða fleiri vini til að gera eins.

Síðan The Best Neknominate Video's heldur utan um það vinsælasta og nýjasta í Neknomination en sumt af þessu er svo heimskulegt að maður bara veit að það eru kjósendur Framsóknarflokksins þarna úti sem mun finnast þetta snilld.
Þetta virkar eins og gömlu keðjubréfin eða hugsanlega bit uppvakninga. Og því miður er það svo að fyrst að við vitum af þessu þá hefur þetta þegar borist hingað. Mótspyrna er gagnslaus.