Körfubolti

Hálfleiksræða Andy fór vel í Keflavíkurstelpurnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andy Johnston talar hér við sínar stelpur.
Andy Johnston talar hér við sínar stelpur. Mynd/Daníel
Keflavíkurkonur sóttu tvö stig í Hveragerði í kvöld þegar liðið vann fjögurra stiga sigur á heimastúlkum í Hamar, 75-71. Keflavíkurliðið lagði grunninn að sigrinum með því að vinna þriðja leikhlutann 20-8.

Bryndís Guðmundsdóttir átti mjög góðan leik með Keflavík en hún var með 18 stig og 22 fráköst í kvöld. Porsche Landry skoraði 23 stig og tvíburasysturnar, Sara Rún Hinriksdóttir (13 stig) og Bríet Hinriksdóttir (12 stig), voru einnig atkvæðamiklar.

Di'Amber Johnson skoraði mest fyrir Hamar eða 26 stig. Hamar endurheimti Marínu Laufeyju Davíðsdóttur sem var með 13 stig og 10 fráköst í kvöld en Hamarsstúlkur urðu þrátt fyrir það að sætta sig við fimmta tapið í röð.

Hamar komst í 16-9 og 18-13 í fyrsta leikhlutanum en var tveimur stigum yfir við lok hans, 21-19. Hamar var áfram skrefinu á undan í öðrum leikhlutanum.

Hamar var 36-33 yfir þegar tvær mínútur voru hálfleiks en Keflavíkurkonur skoruðu fjögur síðustu stigin í öðrum leikhluta og leiddu 37-36 í leikhléi.

Staðan var síðan 44-44 um miðjan þriðja leikhluta þegar Keflavíkurkonur gáfu í, skoruðu þrettán stig síðustu stigin í leikhlutanum og tóku völdin í leiknum. Bryndís Guðmundsdóttir skoraði sex fyrstu stigin í sprettinum og Keflavík var 57-44 yfir fyrir lokaleikhlutann.  Hálfleiksræða þjálfarans Andy Johnston fór því greinilega vel í hans stelpur.

Hamarsliðið náði að minnka munninn í fjögur stig í lokin en Keflavíkurkonur héldu út og lönduðu mikilvægum sigri í baráttunni um heimavallarréttinn við Hauka. Bæði lið eru nú með 26 stig en Haukaliðið hefur betur í innbyrðisviðureignum þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×