Körfubolti

Snæfellskonur með deildarmeistaratitilinn í augsýn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chynna Unique Brown var með flotta tvennu í kvöld.
Chynna Unique Brown var með flotta tvennu í kvöld. Vísir/Daníel
Snæfell er komið með átta stiga forskot á toppi Dominos-deild kvenna í körfubolta eftir öruggan fimmtán stiga sigur á Haukum í kvöld, 79-64, í uppgjöri tveggja efstu liða deildarinnar. Haukar og Keflavík voru jöfn í 2. til 3. sæti fyrir leiki kvöldsins en töpuðu bæði í kvöld og Snæfellskonur eru því með deildarmeistaratitilinn í augsýn.

Snæfell hefur ekki aðeins átta stiga forskot á Haukaliðið því stelpurnar úr Stykkishólmi hafa einnig tryggt sér betri stöðu í innbyrðisviðureignum liðanna þar sem að þetta var þriðji sigur Snæfells á Haukum á tímabilinu.

Hildur Sigurðardóttir var atkvæðamikil hjá Snæfelli með 17 stig og 7 stoðsendingar en Chynna Unique Brown (18 stig og 13 fráköst), Eva Margrét Kristjánsdóttir (13 stig) Hildur Björg Kjartansdóttir (12 stig) áttu allar góðan leik. Lele Hardy var með 17 stig og 18 fráköst hjá Haukum.  

Haukarnir voru með eins stigs forskot eftir fyrsta leikhlutann, 15-16, en frábær annar leikhluti skilaði Snæfellsliðinu níu stiga forskoti í hálfeik, 39-30. Hildur Sigurðardóttir skoraði 9 stig í leikhlutanum.

Snæfell vann síðan þriðja leikhlutann 19-14 og var því komið með fjórtán stiga forskot, 58-44, fyrir lokaleikhlutann. Snæfellsliðið bætti aðeins við í fjórða leikhlutanum og vann sinn áttunda sigur í röð í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×