Meintur leki trúnaðarupplýsinga um hælisleitendur úr innanríkisráðuneytinu er nú kominn á borð lögreglu, en Hanna Birna Kristjánsdóttir fagnar því að lögreglan sé komin í málið.
Ríkissaksóknari hefur falið lögreglu að rannsaka málið svo hægt sé að taka ákvörðun um það hvort ákæra verði gefin út í málinu. Þetta kemur fram á vef ríkissaksóknara.
Í yfirlýsingu frá innanríkisráðuneytinu vegna málsins segir að „ráðuneytið óskar eftir frekari athugun," og að „Ráðuneytið fagnar ítarlegri og vandaðri skoðun ríkissaksóknara.“
Í viðtali við fréttastofu RÚV sagði Hanna Birna að hún fagni því að málið verði rannsakað af lögreglu, enda vilji hún að það verði rannsakað eins ítarlega og mögulegt er.

