Handbolti

Íran og Sameinuðu arabísku furstadæmin á HM í Katar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Barein keppti á HM í Svíþjóð árið 2011.
Barein keppti á HM í Svíþjóð árið 2011. Vísir/AFP
Hvorki Suður-Kóreu né Japan tókst að vinna sér sæti í úrslitakeppni HM í handbolta sem fer fram í Katar á næsta ári.

Nú stendur yfir Asíumeistaramótið í Barein en þó svo að því sé ekki lokið liggur fyrir hvaða þrjú lið komust áfram á HM í Katar.

Þetta eru Barein, Íran og Sameinuðu arabísku furstadæmin sem öll komust í undanúrslit keppninnar ásamt Katar sem fær þátttökurétt á HM sem gestgjafi. Íran og Sameinuðu arabísku furstadæmin munu taka þátt í sinni fyrstu heimsmeistarakeppni á næsta ári en Barein keppti á HM í Svíþjóð árið 2011.

Suður-Kórea hefur ellefu sinnum komist á HM og verið þátttakandi í síðustu fjórum keppnum. Liðið sat þó eftir í sínum riðli í Asíumeistaramótinu eftir að hafa gert jafntefli við Íran og tapað fyrir heimamönnum í Barein.

Japan á ríka handboltahefð en þó aðeins tvívegis komist á HM eftir mótið fór fram þar í landi árið 1997. Í bæði skiptin hafnaði Japan í sextánda sæti, síðast á HM í Svíþjóð fyrir þremur árum.

Japan vann að vísu sannfærandi sigur á Sameinuðu arabísku furstadæminum í hinum riðli keppninnar í Barein en tapaði fyrir Kúveit, Óman og Katar.

Í lok janúar náðu Afríkuríkin Alsír, Túnis og Egyptaland að tryggja sér þátttökurétt á HM sem og Frakkland, Danmörk og Króatía eftir gott gengi á EM í Danmörku. Spánn fær þátttökurétt sem ríkjandi heimsmeistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×