Handbolti

Þórey Anna gerir það gott í Noregi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þórey Anna með móður sinni og liðsfélaga í FH í fyrra, Gunni Sveinsdóttur.
Þórey Anna með móður sinni og liðsfélaga í FH í fyrra, Gunni Sveinsdóttur. Vísir/Valli
Hin sextán ára Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði ellefu mörk í sigri liðs síns, Grue/KIL, í norsku 3. deildinni um helgina.

Þórey Anna vakti mikla athygli með FH í fyrra en hún skoraði til að mynda fjórtán mörk í sigri á Haukum í Hafnarfjarðslag fyrir tæpu ári síðan - þá fimmtán ára gömul.

Í haust hélt hún út til Noregs þar sem hún er í íþróttatengdu námi í menntaskóla. Hún spilar með Grue/KIL undir stjórn Hrafnkels Halldórssonar en hann hefur búið og starfað í Noregi í rúma tvo áratugi.

Grue/KIL vann Flisa í uppgjöri grannliðanna sem spila bæði í Heiðmörk í austurhluta Noregs, 29-20.

„Sóknarleikurinn gekk ágætlega í dag en ég er ekki fyllilega sátt við varnarleikinn hjá mér. Ég þarf að vinna frekar í honum,“ sagði Þórey Anna í viðtali við staðarblaðið Glåmdalen eftir leik.

„Það eina sem skipti máli var að fá tvö stig. Við eigum að vera betri en Flisa og við sýndum það í dag. Næstum allir leikmenn komust á blað í dag og það sýnir breiddina í okkar liði,“ bætti hún við.


Tengdar fréttir

Hún er miklu betri en ég

Gunnur Sveinsdóttir er 32 ára gömul, sem þykir ekki mikið í boltanum í dag, en hún náði því samt að spila við hlið dóttur sinnar, Þóreyjar Önnu Ásgeirsdóttur, í bikarsigri FH á Fylki á miðvikudagskvöld.

Mæðgurnar skoruðu báðar í stórsigri FH

FH-konur halda áfram sigurgöngu sinni með mæðgurnar Gunni Sveinsdóttur og Þóreyju Önnu Ásgeirsdóttur innanborðs og unnu stórsigur á Selfoss í N1 deild kvenna í dag. ÍBV og Grótta unnu einnig stóra sigra í sínum leikjum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×