Handbolti

Kostar 400 þúsund að leggja dúkinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Einar Þorvarðarson í Laugardalshöllinni í dag.
Einar Þorvarðarson í Laugardalshöllinni í dag. Vísir/Stefán
Sextán manns unnu hörðum höndum að því að leggja keppnisdúk á gólf Laugardalshallarinnar fyrir leiki helgarinnar í Coca-Cola bikarnum.

Í kvöld fara fram undnaúrslit kvenna en á morgun verður svo spilað í karlaflokki. Úrslitaleikirnir fara svo fram á laugardag en þess má geta að bikarúrslitaleikirnir í yngri flokki verða spilaðir á sama stað á sunnudag.

Dúkurinn nýtist því vel um helgina en það hefur komið fyrir að það hafi þurft að leggja hann fyrir bara einn leik.

„Við erum skyldugir til að nota dúkinn í landsleiki og því er misgóð nýting á honum. Núna fara þrettán leikir fram á honum en oft er það bara einn,“ sagði Einar Þorvarðarson, framkvæmdarstjóri HSÍ, í samtali við Vísi í dag.

Hann segir að alþjóðleg reglugerð geri kröfu um að landsleikir og fari fram á velli sem eru bara með handboltalínum. Eins og er sé ekkert íþróttahús á landinu með slíkan völl.

„Hugsunin með því að leggja dúk er því fyrst og fremst að fá „hreinan“ völl. Það hefur ekki verið sýnt fram á að það sé minni hætta á meiðslum á dúki fremur en parketi eða neitt slíkt,“ segir Einar.

Mikinn mannafla þarf til að leggja dúkinn en alls komu sextán manns að verkinu í nótt. „Þetta eru eitthvað um þúsund fermetrar og rúllurnar eru alls 32. En við höfum gert þetta nú í 7-8 ár og erum orðnir vanir,“ segir hann og bætir við að dúkalagningamenn komi svo að lokafrágangi verksins.

„Kostnaður við að leggja dúkinn er líklega um 400 þúsund krónur með öllu - vinnu, lími og flutningi.“

Þetta er í annað sinn sem að HSÍ hefur þennan hátt á bikarkeppninni en það gaf góða raun í fyrra.

„Lauslega áætlað komu 10-12 þúsund manns á þessa leiki í fyrra. Það er til dæmis mikið fjör á úrslitaleikjum yngri flokka á sunnudeginum en þá er byrjað klukkan tíu að morgni til og spilað til 21.30 um kvöldið,“ segir Einar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×