Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur ekki gefið afdráttarlaus svör hvort hann telji sig vera að svíkja kosningaloforð um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Kosningarnar hafi að miklu leyti snúist um aðra hluti en ESB.
„Við viljum ekki ganga inn í Evrópusambandið, við viljum opna fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu og ég tel rétt að stefna að henni á fyrri hluta kjörtímabilsins," sagði Bjarni í kappræðum leiðtoga stjórnmálaflokkanna þann 25. apríl síðastliðinn í aðdraganda alþingiskosninganna á Stöð 2.
Í viðtali við Heimi Má Pétursson í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær sagði Bjarni það vera meiri svik við kjósendur Sjálfstæðisflokksins að halda aðildarviðræðum áfram en að draga umsóknina til baka.
„Skoðanakannanir sýna að minnihluti þjóðarinnar vill ganga inn í Evrópusambandið,“ sagði Bjarni. Fréttamaður benti Bjarna á að sömuleiðis vildi meirihluti landsmanna fá að greiða atkvæði um samninginn.
„Það er flækjustig. Það er hluti þess vanda sem við höfum átt við á undanförnum árum.“
Í könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 sem framkvæmd var undir lok janúarmánaðar var eftirfarandi spurningar spurt.
Vilt þú að þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið fari fram samhliða sveitastjórnarkosningum næsta vor?
Þegar horft er til kjósenda stjórnmálaflokka landsins sést að mikill meirihluti þeirra vildi þjóðaratkvæðagreiðslu. Í tilfelli Sjálfstæðisflokksins vildu 65,3 prósent kjósenda flokksins fá þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða sveitastjórnarkosningum.
Björt framtíð 84,8%
Framsóknarflokkur 68,9%
Sjálfstæðisflokkur 65,3%
Samfylkingin 80,8%
Vinstri grænir 65,6%
Píratar 83,9%

Hringt var í 1.322 manns þar til náðist í 800 samkvæmt lagskiptu úrtaki dagana 29. og 30. janúar. Svarhlutfallið var 61 prósent. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir búsetu og aldri.
Spurt var: Vilt þú að þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið fari fram samhliða sveitarstjórnarkosningum næsta vor? Alls tóku 79,5 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar.