Innlent

Misnotkun svefnlyfja - Ódýrara að kaupa fleiri töflur en færri

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
"Það þarf að finna hver rótin er og kynna betur aðrar leiðir við svefnleysi en notkun lyfja,“ segir Lárus.
"Það þarf að finna hver rótin er og kynna betur aðrar leiðir við svefnleysi en notkun lyfja,“ segir Lárus.
Það er ódýrara að kaupa 30 stykki af svefnlyfinu Imovane en 10 stykki. Samkvæmt upplýsingum frá Lyf og heilsu kosta 30 stykki 851 krónu á sama tíma og 10 stykki kosta 895 krónur.

Taflan kostar því rúmar 28 krónur þegar stærri pakkning af lyfinu er keypt en hún kostar rúmar 89 krónur þegar keypt er minni pakkning. Taflan er því rúmlega þrisvar sinnum dýrari þegar þrjátíu töflur eru keyptar en tíu.

25 stykki af lyfinu Sobril, sem er róandi lyf, kosta 872 krónur en það gerir tæpar 35 krónur á stykkið. Ef Sobril er keypt í stærri pakkningu, 100 töflur í pakka, kostar taflan hins vegar rúmar 11 krónur stykkið.

Óheppilegt að ódýrara sé að fá fleiri töflu afgreiddar en færri

„Það að er óheppilegt að þegar um er að ræða lyf sem ber með sér ávanafíkn að það sé ódýrara að fá fleiri töflur afgreiddar en færri,“ segir Lárus S. Guðmundsson, lyfja- og faraldsfræðingur hjá embætti Landlæknis í samtali við Vísi.

Töflurnar séu þannig að sá sem taki þær inn myndi þol á þann veg að einstaklingurinn þurfi, eftir að hafa notað lyfið í einhvern tíma, að taka inn fleiri töflur til þess að fá sömu áhrif.

Notkun svokallaðra z-lyfja er næstum því fimm sinnum meiri hér á landi en í Danmörku. Imovane er dæmi um slíkt lyf. Þetta kom fram í greininni Eru sum lyf ofnotuð á Íslandi? sem birtist í síðasta tölublaði Læknablaðsins.

Þar kemur fram að samanborið við hin Norðurlöndin sé Ísland með tvisvar til þrisvar sinnum meiri notkun svefn- og róandi lyfja.

Að sögn Rúnu Hauksdóttur, formanns Lyfjagreiðslunefndar, er ekki um að ræða sérverðlagningu á Íslandi og verðið á lyfinu Imovane er svipað hér og á hinum norðurlöndunum.

Flest bendir til þess að svefnlyf og róandi lyf hafi verið ofnotuð og misnotuð á Íslandi áratugum saman.
Notkun svefnlyfja að aukast á Íslandi 

„Lyfjaverð getur verið ein af skýringunum, en það skýrir ekki alla þessa notkun,“ segir Lárus. Eflaust séu margar skýringar á því að hans sögn af hverju Íslendingar noti svona mikið af þessum lyfjum. Rannsóknir sem nái aftur til ársins 1970 sýni að hér á landi hafi svefnlyf verið mikið notuð. Þetta sé því ekkert nýtt.

„Þetta með verðið er bara eitt púsl í myndinni. Það er innbyggður hvati í kerfinu að leysa út meira af lyfjunum en minna.“

„Það sem er umhugsunarvert er að á meðan hinar Norðurlandaþjóðirnar standa í stað hvað notkun svefnlyfja varðar og notkunin er jafnvel að minnka þar, þá er notkunin að aukast hjá okkur,“ segir Lárus. Tölur yfir sölu lyfjanna frá árinu 2007 til 2012 sýni þetta glögglega.

Fráhvarfseinkenni geta verið mikil og jafnvel hættuleg

Lárus segir að lyfin séu ekki og hafi aldrei verið ætluð nema til skammtímanotkunar. Í Sérlyfjaskrá segir um Imovane:

„Meðferð á ekki að vara lengur en í tvær til þrjár vikur“

Hér á landi eru hins vegar dæmi um marga einstaklinga þar sem sem lyfin eru notuð mánuðum og jafnvel árum saman án hléa, sem eykur mjög þolmyndun, ávana og fíkn. Fráhvarfseinkenni þegar notkun lyfjanna er hætt skyndilega geta verið mikil og jafnvel hættuleg.

Lyfin henta gömlu fólki illa og valda iðulega rugli og öðrum geðræðnum einkennum hjá þeim aldursflokki. Lyfin geta aukið hættu á byltum og beinbrotum. Sé áfengi notað meðfram lyfjunum eykur það verulega á verkanir lyfjanna, stundum  með mikilli ölvun og minnisleysi.

Þó lyfin hjálpi fólki að sofa rýra þau gæði svefns. Notkun lyfja í þessum flokki dregur úr viðbragðsflýti og skapar hættu við akstur og stjórnun eða vinnu við alls kyns vélar.

Ráðast þarf á rót vandans

Flest bendir til þess að svefnlyf og róandi lyf hafi verið ofnotuð og misnotuð á Íslandi áratugum saman.

Lárus segir að þessi ofnotkun lyfja kalli á skýringar. Meðan við þekkjum ekki orsakir þessarar miklu notkunar lyfjanna sé erfiðara að vinna gegn henni. Brýnt sé að gerðar verði nauðsynlegar rannsóknir sem gætu útskýrt sérstöðu Íslands og afleiðingar óhóflegrar lyfjanotkunar.

„Sú spurning vaknar, hvað getum við gert?,“ spyr Lárus.

Ýmislegt sé hægt að gera og það verði að skoða aðrar leiðir til þess að eiga við rætur svefnleysis þjóðarinnar. Sýnt hafi verið fram á að meðferðir eins og slökun, hugræðnar atferlismeðferðir og núvitund (mindfulness) hafi reynst gagnlegar. Í sumum tilvikum dugi slíkar meðferðir þó ekki þar sem um undirliggjandi orsök á svefnvanda, til dæmis kæfisvefn, geti verið að ræða.

„Það þarf að finna hver rótin er og kynna betur aðrar leiðir við svefnleysi en notkun lyfja,“ segir Lárus. 

Lyf



Fleiri fréttir

Sjá meira


×