Körfubolti

Ragnar samdi við Sundsvall Dragons

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ragnar Nathanaelsson er 218cm hár miðherji.
Ragnar Nathanaelsson er 218cm hár miðherji. Vísir/Jón Björn
Ragnar Nathanaelsson, hinn 218cm hávaxni miðherji Þórs Þorlákshafnar og íslenska landsliðsins í körfubolta, er orðinn atvinnumaður.

Ragnar opinberaði það í Sportþættinum Mánudagskvöld á útvarpi Suðurlands í kvöld að hann væri búinn að skrifa undir samning við sænska úrvalsdeildarliðið Sundsvall Dragons sem Íslendingar þekkja vel.

Með Sundsvall leika landsliðsmennirnir Hlynur Bæringsson, Jakob Örn Sigurðarson og Ægir Þór Steinarsson en þjálfari liðsins var Peter Öqvist, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands. Hann hætti eftir tímabilið.

„Þetta er draumurinn, tala nú ekki um að fá að taka fyrstu skrefin í atvinnumennskunni með Hlyn Bæringsson og Jakob Örn Sigurðarson sér við hlið,“ segir Ragnar í viðtali við karfan.is í kvöld.

Ragnar átti frábært tímabil með Þór í Dominos-deildinni í vetur en hann skoraði að meðaltali 15,4 stig í leik í deildarkeppninni og tók 12,9 fráköst.

Þórsliðið komst í úrslitakeppnina en tapaði fyrir Grindavík, 3-1, þar sem Ragnar hélt áfram að fara á kostum og skilaði að meðaltali 14,25 stigum og 14,5 fráköstum í leik.

Sundsvall Dragons hafnaði í fjórða sæti sænsku úrvalsdeildarinnar í ár en tapaði, 3-1, í átta liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×