Formaður Bjartrar framtíðar segir að landslagið í íslenskum stjórnmálum hafi verið að breytast mikið frá hruni og fylgi við evrópusinnaðan hægriflokk sé til marks um það. Björt framtíð hræðist ekki stofnun slíks flokks enda hafi hún nær tvöfaldað fylgi sitt frá kosningum samkvæmt könnunum.
Samkvæmt könnun Fréttablaðsins og Stöðvar tvö kusu 34 prósent þeirra sem nú segja mjög eða frekar líklegt að þeir myndu kjósa evrópusinnaðan hægriflokk Samfylkinguna í síðustu kosningum og 28,6 prósent kusu Bjarta framtíð. Fimmtán komma sjö prósent segjast hins vegar hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum.
Það er því ljóst að Samfylkingin og Björt framtíð yrðu í harðri samkeppni við kjósendur evrópusinnaðs hægriflokks. Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, segist fagna slíkri samkeppni.
„Ég held að það sé augljóst að fólk sem er hlynnt því að skoða ESB aðild og minnsta kosti ljúka samningunum, kaus frekar Bjarta framtíð eða Samfylkinguna í síðustu kosningum,“ segir Guðmundur.
Því sé ekki óeðlilegt að nýr flokkur með sömu áherslur taki mögulega fylgi frá þeim tveimur flokkum sem haft hafi það á stefnuskránni að ljúka aðildarviðræðunum við Evrópusambandið og ganga í sambandið náist góður samningur. Það sé því ekki ólíklegt að flokkarnir höfði að hluta til sömu kjósenda.
„Ég hugsa það. Fyrir mjög mörgum eru evrópumálin mjög mikilvæg og það er þá eðlilegt að þeir kjósi þá flokka sem leggja áherslu á þau,“ segir Guðmundur.
Ljóst er af könnunum að ef stofnaður yrði evrópusinnaður flokkur til hægri í íslenskum stjórnmálum og hann næði að halda því fylgi sem kannanir hafa verið að sýna að undanförnu að hið pólitíska landslag yrði allt annað í næstu alþingiskosningum en það var í fyrravor.
„Landslagið sakvæmt könnun sem þið voruð t.d. að birta um helgina er gjörbreytt. Landslagið hefur verið að breytast á mjög áhugaverðan hátt finnst mér, ekki bara á undanförnu ári heldur líklega alveg frá hruni. Þannig að við, samkvæmt mörgum könnunum, höfum verið að um það bil tvöfalda fylgið okkar frá kosningum. Hvað okkur varðar er það gjörbreytt landslag. Þannig að þetta eru allt mjög spennandi tímar,“ segir Guðmundur.
Alþingi kemur saman næst komandi mánudag en þá eru tæpar þrjár vikur til þingloka. Ekkert samkomulag er um afgreiðslu mála, þeirra á meðal evrópumálanna.
„Því miður hefur sá ósiður grafið um sig í þinginu varðandi þingstörf að það er aldrei neitt samkomulag gert fyrr en í tímaþröng alveg í lokin. Ætli það verði ekki eins nú,“ segir Guðmundur. En Björt framtíð hafi verið að reyna að beita sér fyrir því að þessum vinnubrögðum verði breytt.
Brentford
Liverpool