Golf

Margir um hituna á Byron Nelson meistaramótinu

Paul Casey lék á alls oddi í gær.
Paul Casey lék á alls oddi í gær. Getty
Það er óhætt að fullyrða að síðustu tveir dagarnir á Byron Nelson meistaramótinu verði æsispennandi en það er ekki oft sem jafn margir keppendur eru í toppbaráttunni í móti á PGA-mótaröðinni. Þegar að mótið er hálfnað leiðir Bandaríkjamaðurinn Brendon Todd en hann er á átta höggum undir pari eftir að hafa leikið annan hring á Las Colinas vellinum í Texas á 64 höggum eða sex undir pari.

Alls eru átta kylfingar jafnir í öðru sæti á sex höggum undir en það eru þeir Graham DeLaet, Morgan Hoffman, Mike Weir, Tim Herron, Mark Leishman, Charles Howell, Martin Kaymer og Paul Casey.

Frammistaða Englendingsins Paul Casey vakti mesta athygli á öðrum hring en hann lék á 63 höggum eða sjö undir pari. Ekkert leit út fyrir að Casey myndi skora jafn vel og raun bar vitni á fyrri níu holunum sem hann lék á einu höggi yfir pari en á seinni níu fór hann gjörsamlega á kostum, fékk sex fugla, einn örn aðeins tvö pör. Skor upp á 27 högg á seinni níu var útkoman en þetta er aðeins í níunda sinn sem einhver leikur níu holur á jafn fáum höggum í sögu PGA-mótaraðarinnar.

Heimamaðurinn og ungstirnið Jordan Spieth er á þremur höggum undir pari og þarf að eiga góðan hring í dag til þess að vinna sig upp í toppbaráttuna fyrir lokahringinn.

Svíinn Peter Hanson sem leiddi mótið eftir fyrsta hring átti ekki góðu gengi að fagna á þeim öðrum sem hann lék á 73 höggum eða þremur yfir. Hann er jafn í 25. sæti á tveimur höggum undir pari samtals.

Þriðji hringur verður í beinni útsendingu á Golfstöðinni í dag og hefst hún klukkan 17:00. Byron Nelson meistaramótið er þó ekki eina mótið sem verður í beinni útsendingu í kvöld en klukkan 23:00 verður skipt yfir á LPGA-mótaröðina þar sem sýnt verður frá Kingsmill meistaramótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×