Íslenski boltinn

Heimir óánægður með rauða spjaldið

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Heimir Guðjónsson.
Heimir Guðjónsson. Vísir/Daníel
„Mér fannst rauða spjaldið ekki réttmætt, gult spjald hefði dugað að mínu mati,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, aðspurður út í rauða spjaldið sem Jón Ragnar Jónsson fékk í bikartapinu gegn KR í kvöld.

„Flest spjöldin í leiknum voru rétt en ég var ekki sammála þessu. Jón Ragnar reyndi að draga úr þessu frekar en hvað annað.“

Sóknarleikurinn gekk illa í FH-liðinu í dag. Heimir gerði lítið úr því að grasið hefði verið að stríða þeim í dag en leikurinn var sá fyrsti í Frostaskjólinu á þessu tímabili.

„Þetta er ekki áhyggjuefni en við þurfum vissulega á því að slípa sóknarleikinn betur. Vellirnir hafa ekki verið að bjóða upp á mikinn fótbolta á grasinu. En ástandið í dag var alveg eins fyrir þá og þeir gátu látið boltann ganga rétt eins og við létum boltann ganga á köflum.“

Kassim Doumbia var á varamannabekknum í dag en var ekki í standi til að byrja leikinn eftir að hafa verið meiddur.

„Kassim fór í myndartöku í gær og er ekki alveg tilbúinn en hann verður vonandi klár í næsta leik. Meiðsli eru aldrei af hinu góða og við höfum verið óheppnir með varnarlínuna okkar. Okkur tókst ágætlega að leysa þetta en auðvitað vill maður hafa alla sína menn klára.“

Atli Viðar og Atli Guðna byrjuðu báðir á bekknum í dag.

„Atli Guðna er búinn að vera meiddur og hann þurfti að koma inn af bekknum en þeir stóðu sig vel í dag.“

„KR-ingarnir voru sterkari í fyrri hálfleik, við spiluðum einfaldlega ekki nægilega vel í fyrri hálfleik. Okkur tókst illa að verjast vinstra megin í vörninni en það gekk betur í seinni.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×