Handbolti

Guðmundur: Það var grátið á laugardaginn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Guðmundur Guðmundsson, fráfarandi þjálfari Rhein-Neckar Löwen, segir að það hefði verið dapurt að missa af meistaratitlinum í Þýskalandi vegna markatölu.

Guðmundur hefur gagnrýnt mótafyrirkomulagið í Þýskalandi en Kiel varð meistari um helgina eftir að hafa unnið stórsigur á Füchse Berlin á heimavelli. Löwen var með betra markahlutfall fyrir lokaumferðina en missti Kiel upp fyrir sig þrátt fyrir fimm marka sigur á Gummersbach.

Svo fór að Kiel vann titilinn með 59 stig og jákvæðri markatölu upp á 236 mörk. Löwen fékk einnig 59 stig en var tveimur mörkum á eftir Kiel.

„Þetta mótafyrirkomulag er með þeim hætti að það var verið að keppa um hvert einasta mark. Við fengum fregnir af því hvernig staðan væri hjá Kiel og Füchse Berlin, þar sem Kiel var komið sautján mörkum yfir.“

„Þetta varð að ómögulegu verkefni fyrir okkur því lið Gummerbach barðist um á hæl og hnakka gegn okkur á sama tíma og Kiel var að slátra Berlín. Þá greip um sig ákveðin örvænting hjá okkur,“ útskýrði Guðmundur.

„Enginn átti von að Berlín myndi tapa svona stórt þó svo að ég væri búinn að undirbúa mig fyrir hvað sem er.“

„Menn voru algjörlega niðurbrotnir eftir leikinn. Ég hef sjaldan séð annað eins. Menn felldu mörg og stór tár inni í klefa. Á bak við svona lagað liggur gríðarleg vinna og það er ekki hægt að lýsa því í orðum þegar þetta hleypur í burtu frá mönnum.“

Viðtalið má heyra í heild sinni hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Guðmundur: Einkennilegt fyrirkomulag

Rhein-Neckar Löwen missti af þýska meistaratitlinum í handbolta eftir dramatíska lokaumferð í gær. Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Löwen, er ekki sáttur með að markatala skuli ráða úrslitum, verði lið jöfn að stigum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×