Handbolti

Guðmundur: Einkennilegt fyrirkomulag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Það var að vonum þungt yfir Guðmundi Guðmundssyni í leikslok í gær.
Það var að vonum þungt yfir Guðmundi Guðmundssyni í leikslok í gær. Vísir/Getty
Rhein-Neckar Löwen missti af þýska meistaratitlinum í handbolta eftir dramatíska lokaumferð í gær.

Fyrir umferðina voru Löwen og Kiel jöfn að stigum á toppi deildarinnar, en lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar sátu í toppsætinu með betri markatölu. Það munaði sjö mörkum á liðunum fyrir leiki gærdagsins  og því var ljóst að mikið þyrfti að ganga á ef Kiel ætlaði að verja meistaratitilinn.

Og til að gera langa sögu stutta, þá tókst Alfreð Gíslasyni og hans mönnum hið ótrúlega. Kiel vann 14 marka sigur, 37-23, á löskuðu liði Füsche Berlin og á sama tíma vann Löwen fimm marka sigur, 40-35, á Gummersbach.

Bæð lið enduðu með 59 stig, en Kiel var með 236 mörk í plús, gegn 234 mörkum Ljónanna.

Í samtali við þýska fjölmiðla eftir lokaumferðina gagnrýndi Guðmundur þetta fyrirkomulag:

"Það er galið að úrslitin í sterkustu deild í heimi skuli ráðist á markatölu. Þetta er algjör þvæla og vekur mann til umhugsunar," sagði Guðmundur.

"Liðin enda með jafn mörg stig, en við fáum silfrið. Þetta er einkennilegt fyrirkomulag. Annað hvort á að láta innbyrðisviðureignir ráða eða leika úrslitaleiki, heima og að heiman, um meistaratitilinn," sagði Guðmundur sem stýrði Löwen í síðasta sinn í gær, en hann tekur sem kunnugt er við danska landsliðinu í sumar.


Tengdar fréttir

Einvígi Alfreðs og Guðmundar

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Rhein-Neckar Löwen, getur kvatt félagið í dag með því að gera liðið að Þýskalandsmeisturum í fyrsta sinn. Liðið hefur sjö marka forskot á Alfreð Gíslason og lærisveina hans í Kiel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×