Handbolti

Hjólaði frá Kiel til Kölnar

Alfreð og Ingo ásamt hjólinu sem fer nú örugglega á eitthvað safn.
Alfreð og Ingo ásamt hjólinu sem fer nú örugglega á eitthvað safn.
Grjótharður stuðningsmaður þýska handboltaliðsins Kiel gerði sér lítið fyrir og hjólaði frá Kiel til Kölnar þar sem úrslitahelgi Meistaradeildarinnar fer fram.

Maðurinn, sem heitir Ingo, fór þessa 467 kílómetra ekki á neinu keppnishjóli heldur á gömlum jálki sem er ekki með neinum gírum.

"Ég er búinn að kveikja í lærunum á mér en annars var þetta stórskemmtilegt," sagði Ingo við komuna til Kölnar.

Það skemmdi eflaust ekki fyrir gleðinni að Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, skyldi taka á móti honum við komuna en Alfreð er sjálfur mikill hjólagarpur.

Þegar Alfreð sá hjólgarminn sem Ingo hafði lullað sér á alla þessa leið gat hann ekki annað en hrósað honum. "Glæsilega gert," sagði Alfreð og brosti.

Undanúrslitaleikirnir fara fram á morgun og úrslitaleikurinn á sunnudag. Allir leikirnir verða í beinni á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×