Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, önnur kona á lista Framsóknarflokksins og flugvallavina, segir að borgarstjórnaflokkur Framsóknarflokksins muni leggja til að lóðaúthlutun til byggingar Félags múslima á Íslandi verði dregið til baka komist flokkurinn í borgarstjórn.
Guðfinna segir einnig að Framsóknarflokkurinn mun berjast fyrir því að flugvöllurinn verði áfram í óbreyttri mynd. „Við viljum að neyðarbrautin og fluggarðar verði áfram á Reykjavíkurflugvelli.“
Guðfinna segist vera í skýjunum með nýjustu tölur.
„Það er ekki nema mánuður síðan við samþykktum listann og flestar okkar fengu ekki nema þriggja klukkustunda fyrirvara til að ákveða hvort þær færu í framboð.“
„Mikið er ég glöð yfir því “ sagði Guðfinna þegar blaðamaður tilkynnti henni að meirihlutinn væri fallinn í Reykjavík ef marka má nýjustu tölur.
Guðfinna segir að fólk vilji fá meira um málin að segja í Reykjavík. Íbúar vilji meira samráð við íbúa og aðalskipulagið hafi ekki staðist þær kröfur.

