Handbolti

Tékkar fara til Katar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Filip Jicha og félagar hans í tékkneska landsliðinu tryggðu sér farseðilinn til Katar í dag.
Filip Jicha og félagar hans í tékkneska landsliðinu tryggðu sér farseðilinn til Katar í dag. Vísir/AFP
Tékkneska landsliðið í handbolta tryggði sér sæti á HM 2015 í Katar með ótrúlegum tólf marka sigri á Serbíu í Brno í dag.

Serbar unnu fyrri leikinn á heimavelli um síðustu helgi með átta marka mun, 23-15, því var fátt sem benti til annars en að þeir væru á leið til Katar.

Tékkar tóku strax völdin í leik dagsins. Þeir komust fljótlega í 6-2 og heimamenn juku smám saman forskot sitt. Tékkar skoruðu átta af síðustu tíu mörkum fyrri hálfleiks og þegar liðin gengu til búningsherbergja var staðan 18-8, þeim í vil.

Heimamenn héldu áfram þar sem frá var horfið í seinni hálfleik og Serbar náðu aldrei að minnka muninn í minna en tíu mörk. Tékkar bættu við forskot sitt og unnu að lokum tólf marka sigur, 33-21.

Jiri Motl skoraði tíu mörk fyrir Tékkland, en næstur kom Miroslav Jurka með níu mörk. Momir Ranic var markahæstur í liði Serba með fjögur mörk.

Seinna í dag mætast Noregur og Austurríki, Þýskaland og Pólland, og Litháen og Rússland í seinni leikjum liðanna um sæti á HM í Katar.


Tengdar fréttir

Austurríki hafði betur gegn Noregi | Stórsigur Serba

Patrekur Jóhannesson og lærisveinar hans í austurríska landsliðinu unnu tveggja marka heimasigur, 28-26, á Noregi í fyrri leik liðanna um sæti á HM í Katar á næsta ári. Norðmenn leiddu með einu marki í hálfleik, 15-16.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×