Innlent

Vilja skilgreina aðlægt belti umhverfis Ísland

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Visir / Daníel
Fimm þingmenn stjórnarflokkanna hafa lagt til við alþingi að Ísland marki sér aðlægt belti í kringum landhelgina. Svæðið myndi afmarkast af línu sem alls staðar er 24 sjómílum frá grunnlínu landhelginnar.

Ekki liggur ljóst fyrir hvernig þetta myndi gagnast Íslendingum en engin fríðindi eða réttindi fylgja aðlægum beltum önnur en heimild til að afstýra og refsa fyrir brot á lögum og reglum í tolla-, fjár-, innflytjenda- eða heilbrigðismálum.

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Hún segist vilja opna umræðuna um aðlægt belti við Ísland með tillögunni. Bendir hún á að um 100 lönd hafi skilgreint slík belti umhverfis landhelgi sína.

Heimild til þess var veitt í hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðana, samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð með tillögunni.

Auk Unnar eru Vigdís Hauksdóttir, Vilhjálmur Árnason, Frosti Sigurjónsson og Valgerður Gunnarsdóttir flutningsmenn að tillögunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×