Skólastarf var flutt frá grunnskólanum að Dalbraut árið 2022 vegna myglu í húsnæði og hefur síðan þá farið fram í gamla skóla, Muggsstofu og Skrímslasetrinu. Ákveðið var í kjölfarið að reisa skyldi nýjan Bíldudalsskóla á lóð við íþróttamiðstöðina Byltu sem nýta mætti á marga vegu og þjóna samfélaginu á Bíldudal. Vonir standa til að húsnæðið verði tilbúið fyrir skólastarf haustið 2025.
Gerður Björk Sveinsdóttir, bæjarstjóri, ávarpaði gesti og sagði stundina vera stóra — ekki einungis fyrir Bílddælinga — heldur einnig fyrir alla íbúa Vesturbyggðar og alla Vestfirðinga. Þá væri táknrænt að börnin sjálf hefji uppbygginguna með því að taka fyrstu skóflustunguna að staðnum sem á að verða þeirra framtíðar umhverfi til náms og leikja. Það væri von sveitarfélagsins að þessi nýja bygging verði hjarta samfélagsins á Bíldudal.