Innlent

Vilja skattaafslátt fyrir þá sem ferðast langa leið til vinnu

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Elsa Lára Arnardóttir er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.
Elsa Lára Arnardóttir er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Vísir / Pjetur
Fimm þingmenn Framsóknarflokksins vilja að fólki sem greiða þarf háan ferðakostnað til og frá vinnu verði veittur afsláttur af tekjuskatti. Hópurinn leggur til við Alþingi að fela Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðgjafa, að undirbúa og leggja fram lagafrumvarp þess efnis.



Þingmennirnir vilja að í frumvarpinu verði ráðherra veitt heimild til að útfæra og setja reglur um skattaafsláttinn. Þessi skattaafsláttur á einungis að gilda fyrir þá sem sækja vinnu innan tiltekinna og skilgreindra atvinnusvæða innan lands. Ekki er fjallað um í þingsályktunartillögu þingmannanna hvaða svæði það eigi að vera.



Elsa Lára Arnardóttir er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Auk hennar skrifa Jóhanna María Sigmundsdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Haraldur Einarsson nafn sitt við hana. Allt eru þetta þingmenn í landsbyggðarkjördæmum en tillögurnar eru nær sérsniðnar fyrir fólk á landsbyggðinni.



Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfisráðherra, flokksbróðir þeirra sem leggja fram tillöguna, hefur flutt samskonar tillögu þrisvar áður en án árangurs.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×