Körfubolti

Íslenskar skyttur stigahæstar hjá öllum liðum í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Óskarsson var stigahæsti íslenski leikmaður kvöldsins.
Haukur Óskarsson var stigahæsti íslenski leikmaður kvöldsins. Vísir/Vilhelm
Það vakti athygli að í Íslendingar voru stigahæstir hjá öllum fjórum liðunum sem voru í eldlínunni í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld en þá lauk fyrstu umferðinni með tveimur leikjum á Ásvöllum og í Þorlákshöfn.

Haukar unnu þá tuttugu stiga heimasigur á Grindavík og Þór úr Þorlákshöfn vann tíu stiga heimasigur á ÍR-ingum.

Haukur Óskarsson fór á kostum hjá Haukaliðinu og var stigahæstur með 27 stig. Hann hitti úr 11 af 15 skotum sínum þar af 5 af 8 þriggja stiga skotum og skoraði meira en stig á mínútu (spilaði í 26 mínútur og 41 sekúndu). Kaninn í Haukum, Alex Francis, skoraði 20 stig.

Magnús Þór Gunnarsson var stigahæstur hjá Grindavík í sínum fyrsta úrvalsdeildarleik með Grindavíkurliðinu. Magnús skoraði 21 stig á 27 mínútum en líkt og Haukur þá setti hann niður 5 af 8 þriggja stiga skotum sínum. Kaninn í Grindavík, Joel Hayden Haywood, skoraði 19 stig.

Tómas Heiðar Tómasson var stigahæstur í Þórsliðinu með 26 stig á 34 mínútum en hann hitti úr 7 af 8 skotum sínum, 11 af 12 vítum og öllum fjórum þriggja stiga skotunum.  Kaninn í Þór, Vincent Sanford, skoraði 19 stig.

Matthías Orri Sigurðarson var stigahæstur í ÍR-liðinu með 24 stig en hann gaf einnig flestar stoðsendingar í liðinu eða sex. Ólíkt hinum þremur hitti Matthías ekki úr þriggja stiga skoti en skoraði 10 tveggja stiga körfur og nýtt 4 af 6 vítum sínum. Kaninn í ÍR, Christopher Gardingo, skoraði 10 stig.








Tengdar fréttir

Haukar og Þór unnu örugga sigra í kvöld - myndir

Haukar báru sigurorð af Grindavík, 97-77, á Ásvöllum í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld. Þór Þorlákshöfn lagði ÍR, 93-83, eftir að hafa verið einu stigi undir í háfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×