„Mín afstaða hefur ekkert breyst gagnvart því að mér finnst að Hanna Birna eigi að segja af sér,“ segir Birgitta. „Þetta breytir í raun ekki neinu nema að það er komið í ljós það sem maður vissi, að þetta skjal kom frá henni eða hennar nánasta starfsliði.“
Birgitta vill ekki svara því hvort hún trúi því að Hanna Birna hafi ekki fyrr en í dag vitað að Gísli Freyr hefði lekið trúnaðarupplýsingum til fjölmiðla.
„Hvort sem ég trúi henni eða ekki er þetta alveg ótrúlegur dómgreindarbrestur hjá henni að ráða manneskju sem er ekki heilli en svo að gera svona lagað,“ segir Birgitta. „Hennar viðbrögð við þessu máli voru öfgakennd og það er áhyggjuefni þegar fólk getur ekki ímyndað sér að eitthvað hafi farið úrskeiðis í ráðuneytinu.
Mér finnst fullt tilefni til að minnast þess að hún hefur ekki axlað neina ábyrgð á þessu öllu saman. Það var hún sem hafði í hótunum við lögreglustjóra, það var hún sem bendlaði Rauða krossinn við lekann í fyrirspurnartíma á Alþingi, ekki hefur hún reynt að verja ræstingafólkið í ráðuneytinu þegar Gísli Freyr reyndi að varpa ábyrgðinni á það.“
Birgitta segir Pírata tilbúna að leggja fram vantrauststillögu á ráðherra en að þingmenn flokksins hafi verið að bíða álits Umboðsmanns Alþingis í málinu.
„Okkur er farið að lengja eftir því og við munum væntanlega funda um það á morgun hvort það sé tilefni til þess að leggja hana fram núna eða hvort við viljum bíða.“