Innlent

Víða snjókoma og hálka

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/vilhelm
Vetrarlegt er á landinu öllu og víða setur niður meiri snjó með éljum. Norðaustan- og austanlands bætir smámsaman í vind og ofankomu allt til morguns og víða verður þar talsverður skafrenningur og blind á köflum. Hiti í kringum frostmark.

Færð og aðstæður

Vegagerðin varar við hálku á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum, en hálka eða snjóþekja er á velflestum vegum á Suðurlandi. Þó er þæfingur í Grafningi. Nokkur hálka er á stofnbrautum á Höfuðborgarsvæðinu, á Reykjanesbraut og á Suðurnesjum.

Snjóþekja og hálka er á Vesturlandi og sumstaðar éljagangur. Snjóþekja og éljagangur er á Holtavörðuheiði, Bröttubrekku og Fróðárheiði.

Á Vestfjörðum er hálka víðast hvar. Þungfært er úr Bjarnarfirði norður í Djúpavík. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Kleifaheiði en Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði eru ófærar.

Á Norðurlandi er víða snjókoma eða éljagangur og hálka eða snjóþekja á vegum. Skafrenningur er á köflum á Norðausturlandi. Þæfingsfærð og snjókoma er á Tjörnesi.

Það er einnig hálka eða snjóþekja á flestum vegum á Austur- og Suðausturlandi og víða skafrenningur. Öxi er þungfær og það skefur á henni. Ófært er á Breiðdalsheiði.

Hálka og snjóþekja er á Suðausturlandi. Þá eru vegfarendur á Siglufjarðarvegi enn beðnir um að gæta ítrustu varúðar vegna jarðsigs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×